149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er enginn misskilningur á ferðinni, 4 milljarðar verða með einu pennastriki 2,9 milljarðar. Það minnir mig á orð þess fjármálaráðherra sem hér situr, sem skildi ekki af hverju öryrkjar föttuðu ekki hversu gott þeir hefðu það á hans vakt. Við skulum bara rifja það upp að helmingur öryrkja hefur minna en 270.000 kr. fyrir skatt til að lifa á, 70% öryrkja eru undir 300.000 kalli fyrir skatt. Það er ótrúlegt að bjóða fólki upp á þann málflutning að öryrkjar ættu nú bara að skilja hversu gott þeir hafa það. Þeir hafa það ekki gott.

Þess vegna höfum við kallað með skýrum hætti — þess vegna leggur Samfylkingin fram breytingartillögu um að bæta hér í. Við erum með breytingartillögu um að setja 4 milljarða til viðbótar inn í þetta kerfi. Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp hafa bæði sagt að það sé vel hægt að útfæra þessa aukningu svo hún taki gildi mjög fljótt.

Ég minni aftur á afturvirku leiðina. Hér er á ferðinni vond pólitísk forgangsröðun og hún er Vinstri grænum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til skammar. Það eru 20.000 öryrkjar í þessu landi og ég stórefa að nokkur öryrki muni nokkurn tímann kjósa ykkur aftur ef þið standið við þetta.