149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn þakkar. Í gær var afgreitt nefndarálit meiri hluta upp á 16 blaðsíður. Nú er það 42 blaðsíður þegar ég tek það úr hólfinu hérna við hliðina. Þar er alla vega kafli um málefnasvið 29, um fjölskyldumál, sem ekki var í álitinu þegar það var afgreitt úr nefnd í gær. Ég velti fyrir mér hvort það vanti einhverjar fleiri breytingar miðað við það sem ég fæ úr hillunum í hliðarherberginu, miðað við það nefndarálit sem afgreitt var úr nefndinni í gær.

Ég velti fyrir mér hvort það þurfi í rauninni ekki að afgreiða nefndarálitið aftur úr nefnd. Ef það eru einhverjar — ja, mér finnast það vera nægar breytingar í rauninni að málefnasvið 29 bætist við, svo ekki sé talað um allar skýringarnar við breytingartillögur á gjaldahlið sem ég fékk ekki tækifæri til að fara yfir þegar ég sem nefndarmaður í þessari nefnd var að gera minnihlutaálit mitt. Geymum það fram í næstu umferð.