149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um efnið. Mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort við förum í rauninni eftir lögum um opinber fjármál. Hv. formaður fór hér mikinn um að lög um opinber fjármál ykju agann, festuna og ýmislegt þess háttar. Förum við í raun eftir þessum lögum miðað við hvernig fjárlagafrumvarpið lítur út og hvernig vinnuferlið er sem við reynum að fylgja? Er það ekki bara mjög svipað og áður var?

Einnig var talað um stórsókn til samgangna. Nú er verið að lækka 400 millj. kr. framlag til Vegagerðarinnar um 150 millj. kr. út af útgjaldavexti. Hvaða áhrif hefur það á samgönguáætlun? Er hún þá í alvörunni fjármögnuð?

Svo finnst mér áhugavert að benda á það sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði áðan: Af hverju getur sú breyting sem lögð var til, þetta loforð um 4 milljarða, ekki einfaldlega verið afturvirk? Allir hérna inni hafa fengið afturvirkar breytingar. Málið er í raun ekki flóknara en það. En að standa við þau loforð sem voru gefin um 4 milljarða kr. í breytingar á kerfinu. Þær geta staðið þó að breytingarnar verði ekki ljósar fyrr en seinna á árinu.