149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fyrst varðandi það hvort við förum að lögum um opinber fjármál. Svarið er einfalt: Já. En við erum vissulega að feta þessa nýju stigu, sem er mjög áhugavert, ég og hv. þingmaður í sameiningu ásamt félögum okkar í hv. fjárlaganefnd. Það er áhugavert að við séum að ná að fara þessa leið í samfellu, að feta þessa stigu frá fjármálastefnu í ríkisfjármálaáætlun til fjárlaga og síðan að fylgja þessu eftir í framkvæmd fjárlaga og fara yfir skýrslur frá ráðherrum þangað til við förum í endurmetna ríkisfjármálaáætlun.

Varðandi samgöngurnar á það við þar eins og um önnur ráðuneyti, og það dregur fram agann, að þarna er verið að hliðra til verkefnum í samvinnu við Vegagerðina.

Afturvirkt? Við höfum ekki séð neinar tillögur. Tökum ákvörðun um það þegar við fáum mál inn varðandi breytingar á örorkubótakerfinu.