149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar yfirgripsmikla framsögu hans. Ég vil vekja máls á því að fram hefur komið á vettvangi nefndarinnar að breyttar forsendur í efnahagsmálum með nýrri hagspá hafa leitt af sér að þegar reiknaður er afgangur, sem mælt er fyrir um að skuli nema 1% í fjármálaáætlun, þá er hann nokkuð þar undir. Ég ætla ekki að gera neitt stórmál úr einhverjum aukastöfum eða neinu slíku, heldur legg ég áherslu á það sem á vondri íslensku heitir „prinsipp“.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að til þess að standa vörð um trúverðugleika nefndarinnar (Forseti hringir.) og fjárlagaferlisins í heild sinni, sé nauðsynlegt, áður en þessi umræða er úti, að gera nauðsynlegar breytingar (Forseti hringir.) þannig að sú viðmiðun (Forseti hringir.) sem mælt er fyrir um í fjármálaáætlun (Forseti hringir.) standi.