149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir að draga þetta fram. Það vakti athygli að ríkisreikningur væri undirritaður en án álits. Við höfum hug á því í hv. fjárlaganefnd eðli máls samkvæmt að fá ráðuneyti og ríkisendurskoðanda á fund nefndarinnar og fara gaumgæfilega yfir það hvað veldur.

Síðan er áætluð ráðstefna í vor um allt lagaumhverfi opinberra fjármála og þetta er mjög mikilvægur þáttur þar, þ.e. hvað veldur þessu. Er þetta spurning um framsetningu, eitthvað tæknilegt varðandi hagskýrslustaðal eða reikningshaldsstaðal o.s.frv.? Það verðum við allt að draga fram í nefndinni. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa athugasemd og fyrir að vekja athygli (Forseti hringir.) á þessum þætti.