149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hjó einmitt eftir því sem hann sagði, að við þurfum að taka miklu dýpri umræðu um þetta málefni. Þess vegna finnst mér óskynsamlegt að ráðast í að selja þessa kvóta strax án þess að í raun hafi farið fram nokkur umræða um það hvert verðmæti þessa kvóta verður í framtíðinni. Ég er ansi hræddur um að við séum að taka skyndiákvörðun til að bjarga einhverjum breytingum á gengi o.s.frv. Ég held að það sé afar mikilvægt að við tökum þessa umræðu. Ég verð að segja að ég tel þetta ekki skynsamlega ráðstöfun sem meiri hlutinn leggur þarna til.

En mig langar að koma örstutt inn á fjármagnstekjuskattinn. Þegar skattstofninn hækkaði á síðasta ári var því lofað að hann yrði endurskoðaður en það er hvergi minnst á slíka endurskoðun í frumvarpinu. Þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var lágt skatthlutfall rökstutt með breiðum (Forseti hringir.) skattstofnum. Mig langar að fá aðeins sjónarmið hv. þingmanns gagnvart þessu.