149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Það er staðreynd máls, alveg sama hversu mikið stjórnarmeirihlutinn reynir að þrátta um það, að þunga niðurskurðarins er beint að velferðarkerfinu, sama hver áformin voru í upphafi um aukningar.

Dregið er verulega úr þeim aukningaráformum milli umræðna. Ríkisstjórnin þurfti að loka 6 milljarða gati vegna aukinnar verðbólgu í þjóðfélaginu, og því gati var lokað með því að skera niður í framkvæmdum í heilbrigðiskerfinu og skera niður bætur til eldri borgara og öryrkja, eða draga verulega úr áformum um aukningu þeirra.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í sérstaklega er að skorinn er niður milljarður í áformum um uppbyggingu í hjúkrunarrýmum hér á landi. Í fyrradag fengum við skýrslu frá landlækni þar sem kom fram að biðlistar hefðu lengst um 20% milli ára. Hér bregst ríkisstjórnin hratt og örugglega við með því að skera niður framlögin til þeirra framkvæmda.

Ég spyr: Var virkilega ekki hægt að finna nein verðug verkefni þarna til að beina þessum milljarði í (Forseti hringir.) úr því að hann nýttist ekki í þeim verkefnum sem voru að tefjast, að sögn stjórnvalda?