149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég er litlu nær. Sú umræða um að hér væru verkefnin að tefjast kom aldrei inn á borð fjárlaganefndar í umfjöllun um fjárlög. Ég myndi kalla þetta mjög hentuga eftiráskýringu.

Hv. þingmaður gæti kannski upplýst mig um hvaða verkefni það eru sem tefjast svona. Er það virkilega svo að engin önnur verkefni séu á teikniborðinu sem hefði verið hægt að taka fram fyrir í þessari röð?

Það er ágætt að hafa í huga að þessi milljarður sem er þarna skorinn niður samsvarar u.þ.b. 30 hjúkrunarrýmum í uppbyggingu. Þetta er ekki meira en það. Þetta eru ekki einhver risavaxin, óyfirstíganleg verkefni sem er þá hægt að kippa upp á framkvæmdaborðið. Það virðist bara ekki vera neinn vilji til þess.

Það er ágætt að hafa í huga í þessu samhengi að þjóðin er að eldast. Öldruðum fer mjög hratt fjölgandi, sem betur fer. En við erum ekki að gera neitt til að bregðast við, þvert á móti er brugðist við með því að skera niður áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma inn í mjög brýna þörf.

Ég vona svo sannarlega að þetta verði endurskoðað á milli 2. og 3. umr. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð.