149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni þessa spurningu um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ég er svo sem ekki með lista yfir þau verkefni en ég get nefnt eitt dæmi sem tefst því miður vegna málaferla, í Boðaþingi í Kópavogi, sem er sorglegt mál sem við þurfum að leysa, hvort sem er á vettvangi sveitarfélags eða ríkis. Svo tafðist að taka skóflustunguna vegna meðferðarkjarna Landspítalans.

Þetta hægist eitthvað aðeins inn í árið þar á eftir þannig að það eru alls konar hliðranir í þessu þar sem við getum með skynsamlegum hætti dregið úr fjárveitingum. Ég ítreka hið fyrra svar mitt. Mér finnst þetta skynsamleg, ábyrg fjármálastjórn.