149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar. Ég hef svo sem áður sagt að þetta frumvarp sé frumvarp glataðra tækifæra. Það er sorglegt hvernig hér er forgangsraðað. Hægt er að gera miklu betur. Við skulum draga það fram strax í upphafi. Við erum á hátindi uppsveiflunnar. Það eru blikur á lofti í efnahagslífinu og ég átta mig alveg á því að það er ekki hægt að gera allt fyrir alla, en það er hægt að gera ýmislegt öðruvísi en hér birtist án þess að hlutirnir fara algerlega á hlið.

Hlutverk stjórnvalda er að tryggja bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Fjárlagafrumvarpið tryggir því miður hvorugt. Ríkisstjórnin ætlar hvorki að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né í nauðsynlega tekjuöflun fyrir hið opinbera, sem kemur síðan niður á velferðarkerfi okkar allra. Það skiptir máli að stjórn á ríkisfjármálum sé ábyrg á sama tíma og þörf fyrir opinbera fjárfestingu er uppfyllt. Hætt er við að þegar hægir á í efnahagslífinu, eins og stefnir í, dugi tekjur ríkissjóðs ekki til að fjármagna núverandi útgjöld. Þess vegna er nauðsynlegt að líta á bæði gjaldahlið frumvarpsins og tekjuhliðina.

Ljóst er að fjárlagafrumvarpið felur ekki í sér þá framtíðarsýn sem Íslendingar hafa kallað eftir og við vorum öll kosin til að fylgja fyrir einungis rúmu ári síðan. Einnig ber að hafa talsverðar áhyggjur af aukinni óvissu í efnahagslífinu og forsendunum sem liggja hér að baki, sem margar hverjar eru brostnar og bresta nánast á hverjum einasta degi, eins og má sjá þegar litið er til gengis krónunnar.

Við í Samfylkingunni leggjum fram breytingartillögur í 17 liðum upp á 24 milljarða króna, en þær eru allar fjármagnaðar. Þessar breytingartillögur boða hins vegar forgangsröðun til framtíðar. Það á við um breytingar á ríkisútgjöldum, en þarna eru líka hugmyndir um breytt tekjuúrræði hins opinbera, sköttum.

Þá gerir 1. minni hluti, þrátt fyrir þessar breytingartillögur, ráð fyrir hærri afgangi á ríkissjóði á næsta ári en ríkisstjórnarflokkarnir gera ráð fyrir í þessu frumvarpi. Það er gert til að tryggja að þegar efnahagurinn tekur dýfu þurfi ekki að skera niður mikilvæga þjónustu við almenning.

Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar, sem við erum búin að ræða hér í vikunni, sem koma að langstærstum hluta frá ráðherrum, eru hins vegar mikil vonbrigði. Eftir umfangsmikla vinnu fjárlaganefndar eru afar litlar breytingar gerðar af hennar hálfu og sumar hverjar eru beinlínis skref aftur á bak, sem er alveg fordæmalaust, að meiri hluti fjárlaganefndar fari aftur á bak í sumum málaflokkum. Og hvað á ég við með því? Ég skal fara yfir það aftur.

Í fyrsta lagi varðandi öryrkjana. Það er alveg skýrt að öryrkjar fá lækkun frá því sem boðað hafði verið í fjárlagafrumvarpinu fyrir tveimur mánuðum. Ég gat um það áðan í andsvari mínu við formann fjárlaganefndar og fjármálaráðherra í gær. Þeir áttu að fá 4 milljarða 2019, en fá 2,9 milljarða. Það er ekkert óskýrt. Rökin eru: Það er ekki búið að útfæra kerfisbreytingar.

Þá hef ég sagt: Ef þeir ætla að vera samkvæmir sjálfum sér ætti þá ekki bara að taka alla peningana til baka, líka 2,9 milljarðana? Eða þá að gera eins og við höfum lagt til, að standa við þessa 4 milljarða? Það er í fyrsta lagi ekki mikið, en það hefði dugað fyrir þriðjungi af því sem það kostar að afnema krónu á móti krónu skerðingu, þessir 4 miljarðar sem áttu að vera sem núna eru orðnir 2,9 milljarðar.

Ef við hefðum staðið við það sem stóð í frumvarpinu, sem er tveggja mánaða gamalt, og farið í kerfisbreytingar sem tekið hefðu gildi eftir fyrsta ársfjórðung, eins og þau hafa nefnt, hefðum við getað látið þær breytingar gilda afturvirkt. Við gerum það oft í þessum þingsal. Í vissum tilvikum þegar laun okkar hafa verið hækkuð hefur hækkunin stundum verið afturvirk, en stundum ekki. Þannig að það er vel hægt ef vilji er fyrir því.

Við í Samfylkingunni munum gefa stjórnarþingmönnum tækifæri til að standa við þessi loforð því að ein af breytingartillögum okkar er að tryggja 4 milljarða í viðbót til öryrkja. Við erum að tala um fjárlagafrumvarp upp á 900 milljarða.

Það fer ekkert allt á hliðina. Ég er alveg talsmaður fyrir ábyrgum ríkisfjármálum, en nú er bara komið að því að forgangsraða í þágu öryrkja, aldraðra og ungs fólks sem setið hefur eftir. Og nú eiga þau enn að sitja eftir.

Húsnæðisstuðningurinn. Tökum hann sem dæmi. Það er svolítið merkilegt með hinn opinbera húsnæðisstuðning, sérstaklega í ljósi þess að verkalýðshreyfingin hefur sagt að húsnæðisstuðningur sé helsta baráttumál þeirra, þ.e. málaflokkurinn. Þarna undir eru stofnframlögin, vaxtabætur og annað. Ef við lítum á frumvarpið stendur húsnæðisstuðningur nánast í stað milli 2018 og 2019. Þetta er nánast sama upphæðin ef við skoðum það í töflunni. Og hvað gerir meiri hluti fjárlaganefndar? Það á að klípa 90 millj. kr. af húsnæðisstuðningi. Við erum að fara aftur á bak eftir alla vinnuna í fjárlaganefnd. Af hverju erum við að gera það? Er ástandið á húsnæðismarkaði með þeim hætti að við getum leyft okkur að draga saman þarna? En þetta er breytingartillaga meiri hluta fjárlaganefndar milli 1. og 2. umr. Það er skref aftur á bak.

Samgöngurnar. Þar er breytingartillaga frá meiri hlutanum. Þar er rúmur hálfur milljarður klipinn af þrátt fyrir að við vitum að samgönguáætlun sé vanfjármögnuð og lítið eða ekkert minnst á borgarlínuna sem oft er annars talað um.

Framhaldsskólastigið. Tökum það líka. Framhaldsskólastigið fær ekki viðbót, eins og hér hefur verið sagt. Ef við lítum á málaflokkinn framhaldsskólastig fær það lækkun milli 2018 og 2019. Jú, nemendum hefur fækkað út af styttingunni, en stjórnvöld lofuðu framhaldsskólunum að styttingarpeningurinn myndi haldast inni. Ég veit að fjárframlög á hvern nemanda hafa hækkað. Það mun ráðherra segja hérna eftir. Ég er ekki að gagnrýna það. Ég gagnrýni að málaflokkurinn átti að halda styttingarpeningum sínum og við áttum að fá einhverja stórsókn. Hér eru margar stórsóknir sem alltaf er verið að tala um.

Og núna, málaflokkurinn framhaldsskólastigið fær lækkun milli ára, örlitla lækkun. Hvað gerir meiri hluti fjárlaganefndar? Hann eykur aðeins niðurskurðinn. Það á að skera niður um 80 millj. kr. í eitthvað sem heitir jöfnun námskostnaðar á framhaldsskólastigi. Af hverju? Það verður fróðlegt að fá svör við því.

Höldum áfram. Framkvæmdir við uppbyggingu nýs Landspítala lækka um 2,5 milljarða. Ég hef fengið skýringar á því sem ég tel vera eðlilegar, en ég vil staldra við niðurskurð í uppbyggingu á hjúkrunarheimilum. Ég tók eftir að formaður fjárlaganefndar var aðeins að reyna að svara því áðan. En ég vil fá frekari skýringar á því. Uppbyggingu hvaða heimila er verið að fresta? Þetta er milljarður. Ríkið sparar sér 700 millj. kr. í rekstri hjúkrunarheimila sem ekki eru byggð, síðan er lækkað um 300 millj. kr. út af minni stofnkostnaði. Við fengum eiginlega ekki svör við því í nefndinni. Það væri fróðlegt ef einhver gæti svarað okkur hvaða heimildir það eru nákvæmlega.

Formaðurinn nefndi einhver málaferli og annað slíkt. Ég held við þurfum að fá aðeins fyllri mynd hvað það varðar, því að það hefur bein áhrif á Landspítala. Um 130 einstaklingar, eldri borgarar, búa á Landspítalanum sem eiga ekkert að búa þar. Það er ekki nýr vandi, alls ekki, en það skiptir máli að við hröðum uppbyggingu hjúkrunarheimila, sem er áætlun ríkisstjórnarinnar og við styðjum það. Við styðjum það góða sem ríkisstjórnin gerir, en ég fæ því ekki komið heim og saman við niðurskurð upp á 1 milljarð í uppbyggingu, vegna þess að við fengum bara að heyra um seinkun framkvæmda. Ég kalla eftir nánari skýringum á því.

Ég er enn að gagnrýna meirihlutatillögur fjárlaganefndar. Þar er skorið núna milli umræðna um 200 millj. kr. í vísindi og samkeppnissjóði í rannsóknum ásamt rannsóknarstarfsemi á háskólastigi. Engin skýring fékkst. Af því bara.

Sömuleiðis á að skerða niður þróunarsamvinnu um 80 millj. kr., sem maður skilur ekki. Það var ekki eins og við settum mikið í þróunarsamvinnu til að byrja með. Það er breytingartillaga frá meiri hlutanum.

Útlendingamálin fá 30 millj. kr. niðurskurð milli umræðna. Hérna kemur fróðlegt atriði. Verið er að skera niður náttúruvernd, skógrækt og Framkvæmdasjóð ferðamannastaða um 170 millj. kr. þrátt fyrir loftslagsáherslur ríkisstjórnar að eigin mati. Þetta er líka svona af-því-bara tala. Engin skýring. Þetta er hluti af breytingartillögum meiri hlutans.

Ég er búinn að fara yfir það lið fyrir lið að breytingartillögur meiri hlutans frá 1. til 2. umr. eru að mörgu leyti skref aftur á bak, alla vega í þeim málaflokkum sem ég er búinn að fara yfir. Við getum verið sammála um það.

Ef við bökkum aðeins og tölum um frumvarpið allt þá sér fjárlaganefnd litla þörf fyrir það að setja raunverulega viðbót til aldraðra, háskóla, framhaldsskóla, almennrar löggæslu eða í barnabætur og vaxtabætur. Það er reginhneyksli að mínu mati að fjárlaganefnd setji ekki krónu til viðbótar í almennan rekstur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, ekki krónu, sem þó skortir 800 millj. kr. til að „sinna grunnþjónustu.“ Fulltrúar frá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni komu til nefndarinnar og sögðu: Til að sinna grunnþjónustunni þarf 800 millj. kr. Nefndin, meiri hlutinn, ákvað að verða ekki við því.

Síðan er sérkennilegt að bregðast ekki við óskum SÁÁ. Einungis er tryggður helmingur þess fjár sem þau kalla eftir til að vinna á biðlistunum sínum og styrkja starfsemi sína á Akureyri o.s.frv. Þetta eru 150 millj. kr. Af hverju göngum við ekki bara alla leið? Það vantaði 300 millj. kr., meiri hlutinn treystir sér í 150 millj. kr.

Aftur finnst mér þetta svo skrýtin pólitík, forgangsröðun og algjör óþarfi, plús það að góð málefni líða fyrir þetta.

Ég ætla aðeins að fara inn í nefndarálitið aftur. Við viljum taka undir þá gagnrýni sem kom frá Alþýðusambandi Íslands, ASÍ, sem gagnrýnt hefur þróun opinberra fjármála á undanförnum árum. Forsvarsmenn ASÍ hafa einmitt sagt að fjármál hins opinbera tryggi ekki félagslegan stöðugleika. Þeir hafa bent á að hér hafi nauðsynlegir tekjustofnar verið veiktir og félagslegir innviðir vanræktir. Þetta segir ASÍ, það er ekki bara stjórnarandstöðuþingmaðurinn úr Samfylkingunni sem segir það.

Það er áhugavert að rifja hér upp að samkvæmt fimm ára fjármálaáætluninni sem við afgreiddum í vor er gert ráð fyrir að samneyslan, sem er neysla hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, á að minnka lítillega næstu fimm árin. Það er áhugavert. Samneyslan á að minnka næstu fimm árin þrátt fyrir að þjóðin sé að eldast. Og hækkandi aldur þjóðarinnar krefst frekari fjárfestinga í innviðunum, það segir sig sjálft. Samneyslan er að minnka þrátt fyrir að gefin hafi verið stór fyrirheit um innviðauppbyggingu. Hlutur samneyslunnar í landsframleiðslunni minnkar því lítillega og sömuleiðis framlög til opinberrar fjárfestingar. Þetta eru áhugaverðar staðreyndir því að ríkisstjórnarflokkarnir segja að þeir séu svo ofsalega duglegir í innviðauppbyggingunni. En tölurnar tala sínu máli og þær segja annað.

Það má líka fara yfir forsendur fjármálaáætlunarinnar sem afgreidd var síðasta vor, og svo frumvarpsins sem er hér. Þetta eru mjög óraunsæjar forsendur. Frumvarpið og áætlunin byggðist á því að hér yrði 13 ára samfleytt hagvaxtarskeið. Vitið þið hvað það hefur gerst oft í sögu Íslands? Aldrei. Það hefur aldrei verið 13 ára samfleytt hagvaxtarskeið, þannig að bjartsýnin er gríðarlega óraunsæ. Þetta sagði annar hver umsagnaraðili á fundi fjárlaganefndar, sérstaklega þegar við afgreiddum fjármálaáætlunina.

Lítum bara á gengi krónunnar. Þegar frumvarpið kom út var miðað við meðalgengi í júlí. Nú er búið að breyta því. Það er komin ný spá. Sú forsenda er jafnvel farin líka. Gengið hefur verið að hrynja og lækka. Gengið var sterkt. Þetta er það sem ég hef verið að draga fram. Gengið er stundum of veikt og stundum of sterkt. Það eru sveiflurnar sem eru allt að drepa. En takið eftir því hvað gengið hefur mikil áhrif á daglegt líf og hvað lífið kostar á Íslandi. Það heitir gengisleki. Þegar gengi krónunnar hrynur um 15 prósentustig, eins og hefur gerst núna undanfarið þýðir það að allt sem við flytjum inn hækkar um 15%. Við lifum mikið á innflutningi af því að við framleiðum ekki margt á Íslandi, þannig að allt mun hækka í verði. Og einn þriðji heildarútgjalda okkar er vegna innfluttra vara, plús það að olían og annað slíkt hefur áhrif á svo marga hluti. Það er meginregla í hagfræðinni að áhrifin eru um 0,4, þannig að ef gengið lækkar um 10%, þýðir það að verðbólga hækkar um 4%, verðbólga er bara hækkun á því hvað hlutir kosta. Það hækkar að sjálfsögðu lánin okkar því að íslensk heimili eru með verðtryggð lán að langstærstum hluta.

Og hvað kallar á það á? Förum í hringekjuna. Það kallar á hærri vexti. Það eru viðbrögð Seðlabankans gagnvart hækkandi verðlagi, þannig að þess vegna eigum við að tala oftar um gengi krónunnar og draga fram hversu dýr hún er fyrir íslensk heimili. Jú, það eru til fyrirtæki og einstaklingar sem geta varið sig gegn sveiflum eða gera upp í öðrum gjaldmiðlum, en íslensk heimili eru ekki í þeirri stöðu.

Mig langar líka aðeins að draga það fram hérna því að það kom ný Hagstofuspá sem gerði ráð fyrir að verðbólga myndi aukast. Hún mun aukast meira en þetta, ég skal lofa ykkur því. Hún átti að vera 2,9% á næsta ári, Hagstofan segir að hún verði 3,6%. Hún verður örugglega hærri. En Hagstofan segir þetta. Allt í lagi. Það er svolítið áhugavert. Þá hækkaði ríkisstjórnin það sem hún er tilbúin að hækka launin okkar og bæturnar um, úr 3,4% upp í 3,6%. Það er svolítið merkilegt að þegar frumvarpið kom fram átti verðbólgan að vera 2,9% og bæturnar að hækka um 3,4%, þá var sem sagt 0,5% kaupmáttaraukning tryggð hjá öryrkjum og öldruðum. En nú er það farið því að verðbólgan á samkvæmt spá Hagstofunnar að vera 3,6% og þá voru bæturnar hækkaðar upp í 3,6%, alveg á pari sem sagt. Áður munaði 0,5%. Aftur er verið að klípa af öldruðum og öryrkjum.

Mig langar að draga fram eignaójöfnuðinn. Ég er eins og rispuð plata að tala um eignaójöfnuð. Jú, jú, ég veit að hér er talsverður tekjujöfnuður, ég ætla ekki að tala um það núna, ég ætla að tala um eignaójöfnuðinn. Hann er gríðarlegur á Íslandi. Það hafa allir í þessum sal heyrt mig segja þetta: 1% ríkustu landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% þjóðarinnar. Stækkum hópinn: 5% ríkustu landsmanna eiga næstum jafn mikið og hin 95%. Þjóðin sér það. Þetta er ósanngjarnt kerfi. Og skattkerfið á að taka mið af þessu. Peningarnir verða til hjá fólkinu og atvinnulífinu. Þeir vaxa ekki á trjánum. Ef við ætlum að styrkja hér innviði verðum við að vera hugrökk og tala um skatta. Ég veit að það er ekkert vinsælt hjá stjórnmálamönnum að tala um skattahækkanir, en ég er algjörlega ófeiminn og Samfylkingin líka að tala fyrir því. Á sumum sviðum þarf að hækka skatta, ekki síst hjá þeim sem eiga peninga, því að annars náum við ekki að fjármagna það sem við og þjóðin höfum verið að kalla eftir. Spítalar kosta sitt. Skólar kosta sitt. Velferðarkerfið kostar sitt.

Það er svolítið merkilegt þegar ríkisstjórnin, sem er einhvers staðar, talar fyrir aðhaldi, að þá er mantran alltaf: Skerum niður, skerum niður. En þau gleyma því að það er líka hluti af aðhaldi að tryggja tekjurnar þar sem þær er að finna. En það er ekki gert. Það má ekki styggja hina ríku.

Ég ætla að fara þá í einstaka hópa. Ég vona að ég sé ekki að endurtaka mig of mikið. Ég held ég fari þokkalega vel yfir þróunina sem lýtur að öryrkjum, þannig að ég ætla ekki að endurtaka mig þar. Ég ætla aðeins að tala um eldri borgara.

Stjórn Félags eldri borgara kom til okkar. Hún lýsti yfir miklum vonbrigðum. Það sér enginn þá veislu sem ráðherra og fleiri telja að aldraðir og öryrkjar búi við. Forsvarsmenn eldri borgara sögðu á fundi fjárlaganefndar, og nú ætla ég að vitna beint í þau, að þau hefðu aldrei séð jafn lága tölu fyrir ákveðinn hóp í samfélaginu. Auðvitað hafa sumir aldraðir það ágætt, eðlilega, en það er viss hópur sem býr við fátækt. Og að eldast á Íslandi, í 11. ríkasta landi í heimi, á ekki að vera ávísun á fátækt eða óvissu. Það er óþarfi. Við erum ríkt samfélag. Ég myndi ekki tala svona ef við værum í 100. sæti eða 50. sæti. En við erum í 11. sæti. Við erum fá, við erum ríkt samfélag, við eigum auðlindir, við eigum öflugan mannauð og við eigum ekki að skilja þessa hópa eftir með þeim hætti sem hér er gert. Mjög fáir greiða fjármagnstekjuskatt á Íslandi. Hlutfallið er með því lægsta í Evrópu, bara 10%. Þessi 10%, ríkir einstaklingar, greiða 70% af fjármagnstekjuskattinum. Það er vegna þess að þegar Samfylkingin var við völd síðast var innleitt frítekjumark til fjármagnstekjuskatts, þannig að mjög margir greiða engan fjármagnstekjuskatt. Bara 2% heimila eða fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar hlutabréfa. Það er hópur sem er aflögufærari nú. Ég er alveg sannfærður um það.

Það er sérkennileg þróun, eins og menn hafa bent á, að skattbyrðin hefur verið aukast hvað mest hjá lágtekjufólki. Laun hafa hækkað, en það á ekkert lögmál að skattbyrðin, hlutfall tekna sem maður greiðir í skatt, hækki, því að þegar við lítum á skattbyrði þarf líka að skoða hvað ríkið tekur frá fólki. Þar eru til dæmis bótaþættir. Þeir skipta máli fyrir fólk, barnabætur og vaxtabætur.

Ég fer aðeins yfir barnabæturnar á eftir. Einn fjórði er dottinn út úr barnabótakerfinu út af skerðingum. Helmingurinn er dottinn úr vaxtabótunum. Það er sérkennilegt. Meira að segja er dálítið skref aftur á bak, eins ég nefndi áðan. Það sem áætlað var í vaxtabætur fyrir árið 2018 var hærra en þetta frumvarp gerir ráð fyrir fyrir 2019, þ.e. 3,4 milljarðar. Síðast þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn voru settir 100 milljarðar kr. í vaxtabætur og barnabætur samanlagt á kjörtímabilinu. Það skiptir máli hverjir stjórna. Þessi ríkisstjórn hefur ekki áhuga á barnabótum, ekki áhuga á vaxtabótum. Jú, þau lyfta aðeins gólfinu varðandi barnabætur þrátt fyrir að hafa fellt tillögur okkar í Samfylkingunni alla vega tvisvar sinnum og hefur hv. þm. Oddný Harðardóttir lagt fram tillögu á næstum hverju einasta þingi um að hækka barnabætur, en það hefur alltaf verið fellt.

Það á ekki að byrja að skerða barnabætur langt undir lágmarkslaunum. En hvað gerir ríkisstjórnin? Jú, við förum í 300.000 kr. og við fögnum öllum jákvæðum skrefum, ég get líka alveg verið dálítið jákvæður. En á sama tíma er skerðingin aukin hjá millitekjufólki. Mátti ekki sleppa því? Skerðingarnar eru nægar fyrir. Nei, það þurfti að gera það. Það þurfti að skera niður í leiðinni eða auka skerðingar hjá millitekjufólki. Þannig að nýtt þrep skerðinga verður til varðandi barnabæturnar og verður til þess að skerðingar aukast fari tekjur foreldris umfram 458.000 kr. á mánuði, sem er langt undir miðgildislaunum eða meðallaunum. Miðgildislaunin eru þeir 618.000 kr., meðaltal er hærra, aðeins 700 og eitthvað. Þannig að við skerum niður barnabætur hjá fólki sem er fyrir neðan meðaltalið. Það er auðvitað ákveðin pólitík sem birtist hér. Hér er verið að nálgast barnabætur sem einhvers konar fátæktarstyrk. En barnabætur eru hvergi annars staðar á Norðurlöndunum hugsaðar sem fátæktarstyrkur.

Samkvæmt skýrslu frá UNICEF var álitið að um 6.000 börn á Íslandi sem liðu efnahagslegan skort. Barnabætur skipta máli fyrir fólk í neðsta tekjuhópnum og millitekjuhópnum til að ná endum saman. Og vaxtabætur gera það líka. Þetta eru litlar tölur í stóra samhenginu, 3 milljarðar í vaxtabætur. En þegar síðasta vinstri stjórn stórjók vaxtabætur var alltaf helmingur af því sem tekjulægsti hópurinn greiddi í vexti dekkaður af vaxtabótum. Það skiptir máli.

Húsnæðismálin. Ég ætla aðeins að fara í þau. Ég nefndi það aðeins áðan að það er köld tuska í andlit verkalýðshreyfingarinnar þau skilaboð sem felast í frumvarpinu sem gerði ráð fyrir nánast sömu krónutölu milli 2018 og 2019, og núna kemur fjárlaganefndin með niðurskurð. Þið sjáið töflu 140 ef þið trúið ekki ykkar eigin tölum, eins og mér sýnist raunin oft vera. Ég skil ekki þessa pólitík. Við erum að fara aftur á bak. Við erum ekki að fara fram, þ.e. stjórnarþingmenn.

Við erum með breytingartillögu hvað þetta varðar. Fjárlögin eru ekki lokuð. Við getum enn þá breytt þessu. Ég held að allir stjórnmálamenn myndu vaxa við það, ekki síst stjórnarþingmenn. Ég veit að félagar mínir í Vinstri grænum hafa lengi vel verið í stjórnarandstöðu og hafa oft gagnrýnt af hverju allar tillögur stjórnarandstöðunnar séu felldar. Það á ekki að skipta máli hvaðan gott kemur. Við erum lítið samfélag. Við erum fámenn. Við getum unnið miklu meira saman. En hvernig stendur á því að stjórnarliðar fella hverja einustu tillögu sem við leggjum fram þó að það séu kannski orðréttar gamlar tillögur ykkar? Það er pólitíkin sem við eigum að komast upp úr.

Ég segi: Ég gæti farið í 100 ræður Vinstri grænna og Framsóknarmanna og jafnvel Sjálfstæðismanna sem kallað hafa eftir öðrum vinnubrögðum. Nú standið þið frammi fyrir því þegar við greiðum atkvæði fyrir ýmsum breytingartillögum sem Samfylkingin hefur lagt fram. Ég veit þið munuð ekki styðja margar þeirra, allt í lagi. Þetta eru mismunandi pólitískir flokkar. En sumt er bara úr ykkar eigin stefnuskrá og mun ekki tæma ríkiskassann eða setja allt á hliðina. Þið vitið það vel. Þið vitið það. Þið þurfið ekki að samþykkja allt sem við leggjum fram. Auðvitað greinir okkur á. Ég veit að okkar pólitík, pólitík mín og pólitík hæstv. fjármálaráðherra varðandi barnabætur og vaxtabætur er bara ólík. Það er allt í lagi. Þetta er bara hugmyndafræðilegur ágreiningur. En hann er enginn gagnvart Vinstri grænum. Ég veit það alveg.

Ef stjórnarþingmenn myndu alla vega skoða með opnum huga eitthvað af þessum tillögum og samþykkja. Þið mynduð fá kreditið. Þetta snýst ekki einu sinni um kredit. Það er bara asnalegt að tala um það í því samhengi. Það myndu allir stækka við það, plús það að þjóðin myndi hagnast á því. Þannig að ég biðla til ykkar að íhuga þetta yfir helgina. Væri ekki allt í lagi að styðja eina, tvær, þrjár, fjórar tillögur? Þið megið eigna ykkur allt það skref ef þið tækjuð það. Mér er alveg sama.

Fæðingarorlofið. Hér er verið að hækka þakið eða hámarkið aðeins. Allir flokkar eru sammála um að bæta þurfi fæðingarorlofið, en mig langar aðeins að segja í sambandi við það að við verðum að huga að fæðingarstyrk. Það er sú skammarlega lága upphæð, 70 eða 80 þúsund kall, sem einstaka foreldrar fá ef þeir eru utan vinnumarkaðar eða í námi. Við ættum aðeins að huga að þeim hópi. Ég minni á að það eru margir vinklar á fæðingarorlofsmálinu.

Háskólarnir. Hér er menntamálaráðherra í salnum, sem er afar dugleg að fylgjast með, sem er gott. Við erum sammála um að bæta þurfi í menntamálin, háskólana og framhaldsskólana. Það er mjög metnaðarfullt markmið í stjórnarsáttmálanum sem ég styð heils hugar. Það er flott ef við náum fjármögnun háskólanna upp í OECD-viðmiðið og síðan Norðurlandaviðmiðið. Það er frábært. Þá skal ég standa upp og klappa fyrir ríkisstjórninni. En við munum ekki ná því. Samkvæmt fjármálaáætluninni, sem er fyrir fimm ár, erum við enn þá undir. Ég styð heils hugar hæstv. menntamálaráðherra í lobbíisma sínum við að fá meiri pening í þetta. Hún á svo sannarlega stuðning Samfylkingarinnar skilið hvað það varðar. En hún þarf líka að standa við það því að þetta er mjög skýrt. Ég ætla ekki að fara að rífast um — jú, ég get svo sem alveg rifist um það hvað kostar að ná þessu viðmiði. Ég er alveg sammála ráðherra um að við þurfum að negla það niður. Ég veit að ráðherrann er að skoða það.

Hvað kostar að ná OECD-viðmiðinu? Það sem ég hef séð er að við náum OECD-viðmiðinu að því gefnu að enginn hagvöxtur verði á OECD-svæðinu. Ég vona að það sé ekki rétt. Þá stendur OECD-viðmiðið fast og þá náum við því. Við áttum að ná því 2020 og svo 2025, en þá vantar talsvert upp á ef gert er ráð fyrir lágmarkshagvexti á OECD-svæðinu.

Þær tölur sem ég hef séð eru að ef við ætlum að ná OECD-viðmiðinu þarf að auka það um 3,5 milljarða, og 11 milljarða, sem er mjög há upphæð, ef við ætlum að ná Norðurlandaviðmiðinu 2025. En ég vil ekki rífast um tölur og staðreyndir, þannig ég bind bara vonir við að við getum verið samferða í þessari vegferð.

Háskólarnir hafa lengi verið vanfjármagnaðir á Íslandi, ólíkt grunnskólunum. Við erum með eitt besta fjárframlagið í grunnskólakerfið, en háskólar og framhaldsskólar sitja eftir. Það átta sig allir á því að hér þarf að spýta í, ekki síst gagnvart þeim samfélagsbreytingum sem fram undan eru. Við eigum að veðja á menntun. Auðvitað eru allir sammála um það. Hver króna í menntakerfi og rannsóknir skilar sér til baka í öflugri mannauð, meiri hagvexti o.s.frv. Menntakerfið er líka mikilvægt varðandi jöfnuð þannig að það skiptir máli að við vanrækjum það ekki.

Ég hef áhyggjur af framhaldsskólakerfinu. Framhaldsskólakennarar komu til okkar síðastliðinn vetur. Þeir nota orðið þolmörk. Þeir eru komnir að þolmörkum. Framhaldsskólastigið á ekki að vera á neinum þolmörkum. Ég vil hvetja okkur öll og ráðherrann auðvitað líka, við þurfum með einhverjum hætti að efla starfs- og iðnnámið en ekki bara tala um það. Þetta er fyrsta ræða allra menntamálaráðherra, þ.e. að ætla að efla starfs-, tækni- og iðnnám. Við þurfum einhvern veginn að takast á við það. Þetta er ekkert flokkspólitískt mál eða neitt, ég átta mig alveg á því, við þurfum að hafa meiri fjölbreytileika hvað þetta varðar. Við erum enn þá með of hátt brottfall. Það snertir líðan einstaklinga í skóla o.s.frv. Það snýst líka um viðhorf foreldra og fjölskyldu til iðnnáms. Ég er ekki að segja að til séu neinar auðveldar lausnir á því, en ég lofa ykkur samstarfi um þetta ef þið kærið ykkur um það.

Heilbrigðismálin. Bætt hefur verið í heilbrigðismálin, sem er frábært, enda er það mál númer eitt, tvö og þrjú sem þjóðin vildi, þ.e. meiri peninga í heilbrigðismálin. Þrátt fyrir það er stefnan fallin á þessu ári í Landspítalanum um tæplega 2 milljarða. Forsvarsmenn Landspítalans komu til okkar í vor og sögðu að það þyrfti að lágmarki um 5,4 milljarða fyrir 2019, en Landspítalinn fær núna 2,5 í reksturinn. Ég er ekki að tala um uppbyggingu á spítalanum, hún er í farvegi. En það vantar um 3 milljarða til að mæta þeirri þörf sem metið er að sé fyrir hendi á spítalanum út frá markmiðum ríkisstjórnarinnar. Tölurnar um heilbrigðismálin verða svo ofsalega stórar fljótt, þannig að ég veit að þetta mál er vandmeðfarið.

Ein ekkert sérstaklega stór tala lýtur að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. 800 milljónir er ekki há tala í þessum sal þegar um er að ræða þær sex heilbrigðisstofnanir sem eru úti á landi. Það er sú tala sem þessar stofnanir kölluðu eftir bara til að sinna grunnþjónustunni. Ég veit að settar eru 200 millj. kr. í myndgreiningarbúnaðinn. Það er gott, en 800 millj. kr. vantar í grunnþjónustuna. Nefndin hefði alveg getað lagt það til en gerði það ekki.

Ef þið eruð að fylgjast með hvar ég er í nefndarálitinu þá er ég hálfnaður. Ég er í heilbrigðismálunum.

Við þurfum að efla heilbrigðisstofnanir úti á landi. Það getur líka sparað kostnað á öðrum sviðum. Fólk þarf ekki að koma til Reykjavíkur, það þarf ekki að nota dýrari úrræði frá Landspítalanum. Það eru svo margar fjárfestingar hjá hinu opinbera sem ekki eru bara kostnaður og útgjöld, þær spara líka krónur og aura, fyrir utan það að lina þjáningar og draga úr óþægindum og öðru slíku.

Við höfum áhyggjur af greiðsluþátttöku. Verið að reyna að draga úr henni. En betur má ef duga skal. Við erum enn þá eitthvað frá hámarkinu varðandi það hversu mikið einstaklingur þarf að greiða áður en hann nær hámarkinu, eins og ASÍ og fleiri hafa verið að benda á, við megum ekki gleyma því. Ég var búinn að nefna SÁÁ. Þá vantar bara örlítið, það vantar 150 millj. kr. til að vinna á biðlistum. SÁÁ vinnur ómetanlegt starf, bjargar mannslífum. Allir styðja það góða starf. En orð geta verið ódýr í þessum sal. Fjármunir þurfa að fylgja. En meiri hlutinn vill bara setja helming inn í þetta, sem er sérkennilegt. Sumar tölur í heilbrigðismálum eru ekkert mjög háar.

Löggæslan hefur bent á að það vanti í almenna löggæslu. Það voru nokkrar fréttir af því í vetur, ég vona að ég fari með rétt mál, að tveir, þrír, fjórir lögreglumenn vöktuðu um 60.000 manns í Kópavogi og hluta af Reykjavík. Það er auðvitað eitthvað að. Þetta er grunnþjónusta hins opinbera. Löggæslan.

Það sem sett er í löggæsluna er fyrst og fremst vegna landamæravörslu, þyrlukaupa og viðbragða vegna fjölgunar ferðamanna. Hin almenna löggæsla hefur setið á hakanum. Maður þarf ekki að hitta marga lögreglumenn til að sjá að þar er verk að vinna.

Samgöngurnar. Ég er enginn sérfræðingur í samgöngumálum, en við sjáum að samgönguáætlun er vanfjármögnuð. Það er lítið sem ekkert minnst á borgarlínu. Það er áhyggjuefni, vegna þess að borgarlínan er ekki bara spurning um bættar almenningssamgöngur heldur fjallar hún líka um umhverfismál, loftslagsmál. Ég hefði gjarnan viljað sjá einhver skilaboð í frumvarpinu, að ég tali ekki um fjármálaáætlunina sem er til fimm ára, um að meira væri hugað að borgarlínunni sem mundi þjóna öllu landinu.

Eins og ég gat um í upphafi á að klípa hálfan milljarð af samgöngumálunum milli 1. og 2. umr. af því bara. Bókstaflega af því bara. Það var engin skýring af hverju það var. Kannski kemur hún á eftir. Ég veit að margir þingmenn hafa áhuga á samgöngumálum. Þeir ættu að huga að því af hverju það er gert og ræða við sína ráðherra.

Aðrir þættir. Viðskiptaráð. Nú ætla ég að vitna í það. Hægri menn vilja hlusta kannski frekar á það en mig, með leyfi forseta:

„Nokkuð holur hljómur virðist vera í örvun nýsköpunar þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir samdrætti útgjalda til málaflokksins …“

Þetta segir Viðskiptaráð. Sérkennilegt. Eins og ég gat um áðan er ein af breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar að skera niður um 200 millj. kr. í vísindi og samkeppnissjóði … (Gripið fram í.)— Já, það er aðeins verið að skera þar niður.

Hækkun kolefnisgjalds. Ég fagna því, en við hefðum átt að hækka það meira. Nú eru Vinstri grænir í ríkisstjórn og enn þá eru þeir ekki komnir í þá hækkun sem fyrri ríkisstjórn var búin að ákveða með Bjartri framtíð, Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum. Þannig að hækkun kolefnisgjalds, sem er mengunarskattur, sem eru einna skynsamlegustu skattarnir, er lægri á vakt Vinstri grænna en Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Sérkennilegt. Ég held að við ættum að hækka það.

Hérna er breytingartillaga sem ég vil vekja athygli á sem Samfylkingin leggur fram, þ.e. að setja 300 millj. kr. í sjónvarpssjóðinn svokallaða, Ekki hefur mikið farið fyrir þeirri umræðu. Sjónvarpssjóðurinn heyrir undir Kvikmyndasjóð, Kvikmyndamiðstöð. Fer rúmur milljarður í Kvikmyndasjóð en talsvert minna í sjónvarpssjóð. Maður hefur heyrt það frá fólki greininni að það komi nánast ekkert þaðan. Margar rannsóknir sýna að hver króna sett í slíka starfsemi, í leikið sjónvarpsefni, skilar sér til baka, bæði í ríkiskassann í sköttum og umsvifum, en líka þegar kynna á Ísland og annað slíkt. Þannig að ég vona að menntamálaráðherra styðji þessa tillögu upp á 300 millj. kr. Það myndi ekki setja neitt á hvolf en mundi skipta sköpum varðandi styrki til leikins sjónvarpsefnis.

Þróunarsamvinnan. Stundum skammast maður sín fyrir af hverju við setjum ekki meira í þróunarsamvinnu. Við erum 11. ríkasta land í heimi. Við erum langt frá því viðmiði sem Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir að við setjum í þróunarhjálp. Við erum talsvert undir Norðurlöndunum. Við megum ekki vera neinir eftirbátar hér.

Ég ætla aðeins að rifja það upp og spyrja alþingismenn: Hvenær hætti Ísland að fá þróunarhjálp frá Sameinuðu þjóðunum? Hvenær hætti Ísland að fá aðstoð frá þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna? Það var árið 1976. Það er ekki lengra síðan. Árið 1976 fékk Ísland síðast þróunarhjálp. Við megum ekki gleyma því að við vorum einu sinni þróunarland. Við vorum eitt fátækasta land í Evrópu í upphafi síðustu aldar. Við höfum líka þurft að reiða okkur á alþjóðasamfélagið í seinni tíð. Við þurfum ekki að fara nema tíu ár aftur í tímann þegar við vorum svo gjörsamlega á hnjánum eftir hrun. Þá kom alþjóðasamfélagið, fyrst gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, svo einstök ríki, og hjálpaði okkur. Við þurftum peninga til að kaupa krabbameinslyf, olíu, borga laun. Þannig að við höfum svo sannarlega þurft að reiða okkur á aðstoð umheimsins. Auðvitað eigum við að gefa til baka þegar vel gengur. En hvað gerist á þriðjudaginn? Þá lækka fjárframlög til þróunarsamvinnu um 80 millj. kr.

Við erum með breytingartillögu um að 400 millj. kr. verði látnar renna til neyðarhjálpar UNICEF til barna í Jemen. Ég vona að þessi tillaga af öllum komist í gegn. Við verðum öll stærri fyrir vikið. Ég vil benda á það sérstaklega.

Breytingartillögur okkar eru 17. Þær eru að fullu leyti fjármagnaðar miðað við þær hugmyndir sem hér eru. En ég vil taka það fram að Samfylkingin er ekki að leggja fram heilt frumvarp. Ef við værum í ríkisstjórn væri margt öðruvísi. Hér eru hugmyndir okkar um að sníða agnúa af þessu fjárlagafrumvarpi glataðra tækifæra. Þetta eru ekki tæmandi breytingar sem við myndum vilja standa fyrir. Þetta eru hugmyndir, þetta er tækifæri fyrir okkur öll til að rétta kúrsinn aðeins af. Hér eru líka hugmyndir um tekjuleiðir til að fjármagna þetta og skila meira að segja aðeins meiri afgangi, sem fjármálaráðherra hlýtur að vera ánægður með.

Þessar tillögur og hugmyndir — þetta eru fyrst og fremst hugmyndir, við höfum rætt þetta oft, það er allt í lagi að ræða það — eru t.d. um sykurskatt. Það gæti verið smátíund í því. Við lögðum á sykurskatt á sínum tíma. Sumir sögðu að hann hefði ekki verið nógu hár til að hafa áhrif. Ein af niðurstöðum hagfræðinnar er að fjárhagslegir hvatar hafi áhrif á hegðun okkar. Það liggur alveg fyrir. Og að hækka gjald á sykri hefur áhrif, plús það að þetta eru einhverjar tekjur í kassann. En við nálgumst það ekki beinlínis út frá því heldur út frá lýðheilsusjónarmiðum. Við neytum allt of mikils sykurs. Við erum ein feitasta þjóð í Evrópu, án gríns. Sykur og sykraðar vörur eiga að vera dýrari, alveg eins og tóbak á að vera dýrt. Við viljum taka fyrstu skrefin í að setja aftur á sykurskatt hér.

Við viljum líka aukin auðlindagjöld. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að við tölum um það. Förum aðeins yfir það.

Veiðileyfagjald næsta árs eru 7 milljarðar. Í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar átti veiðileyfagjaldið að nema um 10 milljörðum kr. fyrir árið 2018, samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2018. Samkvæmt tölum sem alla vega útgerðin talar um, nemur veiðigjaldið jafnvel 11 milljörðum. Ef það væri svo værum við að lækka veiðileyfagjald um 4 milljarða. Mér finnst það sérkennileg forgangsröðun. Það hefur gengið mjög vel í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn hagnaðist um tæpa 400 milljarða á sjö árum. Sjávarútvegurinn hefur kallað síðustu ár gullaldarár. Ég veit að það er að hægjast á, en ég veit líka að hér höfum við stór og sterk sjávarútvegsfyrirtæki sem geta borgað meira fyrir aðgang að auðlind sem þeir eiga ekki. Það má ekki gleyma því. Sjávarútvegsfyrirtækin eiga ekki þessa auðlind. Það stendur í lögum. Auðlind sem metin hefur verið allt að þúsund milljörðum, sem gefur aðgang að einum gjöfulustu fiskimiðum í heimi. Þá eru 7 milljarðar ekki hár aðgöngumiði. Þá er sagt: En sjávarútveginn borgar tekjuskatt. — Jú, jú, hver einasta sjoppa greiðir tekjuskatt. Það er eðlilegur hluti af að vera í atvinnulífi hvar sem maður er. Auðlindagjald, veiðileyfagjald, er aðgöngumiði, er leyfi til að veiða, til að nýta þessa auðlind sem maður á ekki. Það er eins og veiðileyfi. Maður kaupir veiðileyfi og fer í á að veiða. Þetta eiga að vera 7 milljarðar. Vita menn hvað það er orðið lágt? Tóbaksgjaldið sem íslenska ríkið innheimtir eru 6 milljarðar. Þannig að veiðileyfagjaldið er að verða álíka hátt og tóbaksgjald sem við setjum á sígarettur sem 13% af þjóðinni reykir. Finnst fólki það rökrétt?

Gerum þetta aðeins fáránlegra: Veiðileyfagjaldið á líka að dekka þann kostnað sem hið opinbera verður af við að þjónusta geirann; við eftirlit, rannsóknir, o.s.frv. Kostnaður hins opinbera vegna sjávarútvegs eru 5 milljarðar. Það kemur fram í veiðigjaldafrumvarpinu sem við eigum eftir að ræða. Hver er þá nettófjárhæðin sem þjóðin fær fyrir aðganginn að auðlindunum? Tveir milljarðar, sem er helmingi hærra en það sem við innheimtum í umferðarsektir. Það er ekki sanngjarnt eða rökrétt, herra forseti.

Auðvitað á auðlindagjaldsumræðan líka að snúast um orkuauðlindir og annað slíkt. Við þurfum líka að taka þá umræðu og klára hana einhvern tímann, að fá auknar tekjur af erlendum ferðamönnum. Hér eru svo sannarlega glötuð tækifæri því að greinin þarf að sjálfsögðu aðlögunartíma.

Að fara úr 500.000 ferðamönnum fyrir tíu árum upp í tvær og hálfa milljón, og við erum ekki enn þá komin með niðurstöðu um hvernig við fáum frekari tekjur af erlendum ferðamönnum. Menn eru búnir að prófa náttúrupassa, hækka vaskinn, það eru komugjöld, brottfarargjöld, litli gistináttaskatturinn. Við þurfum að klára þá umræðu. Og þær tekjur sem við náum af erlendum ferðamönnum mega mín vegna alveg renna í uppbyggingu á greininni, gera klósett og stíga. Við eigum að finna leið til að fá auknar tekjur af erlendum ferðamönnum og ekki bíða enn eitt árið með ekki neitt neitt, ef svo má segja, alla vega lítið.

Fjármagnstekjuskatturinn. Ég gat um hann áðan. Það er heppilegt að hækka hann. Hann er tiltölulega lágur á Íslandi. Hann var hækkaður í fyrra, ég átta mig alveg á því. Hann var 10%, hugsið ykkur, en er kominn upp í 22%. Við erum komin með frítekjumark. Það skiptir máli. Vinstri stjórnin gerði það. Flestir sem fá einhverjar fjármagnstekjur greiða engan fjármagnstekjuskatt þegar skatturinn er gerður upp, það sem fólk er með undir frítekjumarkinu. 10% greiðir 70% skattsins. Og bara 2% greiða fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar á hlutabréfum. Samkvæmt fjármálaáætluninni átti fjármagnstekjuskatturinn að skila 2 milljörðum kr. hærra á næsta ári en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þannig að hér eru margar hugmyndir. Ég vil aðeins klára það. Enn stendur til að lækka bankaskattinn, reyndar ekki á næsta ári, en samkvæmt fjármálaáætlun. Ég get alveg sagt að auðvitað á bankaskatturinn einhvern tímann að fara. Þetta er skrýtinn skattstofn, ég skal viðurkenna það, en það er ekki forgangsmál núna. Þetta eru 7 milljarðar. Mér finnst skrýtið að stjórnarflokkarnir setji það í forgang.

Við fögnum lækkun tryggingagjaldsins. Gott og vel. Við furðum okkur á því af hverju persónuafslátturinn er bara hækkaður um 500 kr. á mánuði. Við fögnum því hins vegar að ekki var farið í flata tekjuskattslækkun. Maður skynjar að hér var tekist svolítið á bak við tjöldin í sumar þegar Sjálfstæðisflokkurinn virtist vilja fara í flata tekjuskattslækkun á meðan Vinstri grænir vildu frekar fara í persónuafsláttinn. Nú er búið að falla frá flatri tekjuskattslækkun, eins og ég skil það, enda er hún ósanngjörn. Flöt tekjuskattslækkun gagnast fyrst og fremst þeim sem hærri hafa tekjurnar, það segir sig sjálft. En persónuafslátturinn á að hækka um rúmlega 500 kr. umfram verðlag, sem þýðir svona gróft reiknað 1.500 kr. hækkun á skattleysismörkum. Það er allt og sumt, 540 kr.

Samfylkingin er með tillögu um að afnema skattafslátt í formi samnýtingar skattþrepa, en við höfum ítrekað fengið upplýsingar um að sá háttur vinni gegn jafnrétti. Það er það sem við höfum m.a. bent á í kynjaðri fjárlagagerð og félagið Femínísk fjármál hafa bent á það og fleiri aðilar. En um 93% af þessari endurgreiðslu, sem eru um 3 milljarðar, það er ekki lítið, fer til hækkunar ráðstöfunartekna karla, tekjuhárra karla. Þannig að við verðum að hætta þessari samnýtingu. BHM er sammála okkur og fleiri.

Við leggjum líka til að sveitarfélögin fái gistináttaskattinn. Auðvitað þarf að hafa samráð við sveitarfélög um hvernig það verður útfært, en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt áherslu á þetta. Og margir bæjarstjórar, ekki síst Sjálfstæðisflokksins, hafa kallað eftir þessu. Þetta eru 1,3 milljarðar, sem myndu þá renna til sveitarfélaga.

Þá held ég að ég sé nokkurn veginn búinn að fara yfir breytingartillögur okkar, annars vegar á gjaldahliðinni og svo hugmyndir okkar um hvernig við ætlum að fjármagna þær.

Að lokum vil ég ítreka að öll nálgun Samfylkingarinnar er að hlífa millitekju- og lágtekjuhópum. Allar þær skattbreytingar sem ég tala um hlífa venjulegum Íslendingum, ef svo má segja, auka álögurnar á þá sem eiga peninga. Það er fullt af fólki sem á mikla peninga hérna. Við aukum álögurnar þar. Það fólk er aflögufært. Við búum í samfélagi og við þurfum að fjármagna það. Það er alveg óþarfi að hafa kerfi sem hyglir beinlínis stóreignafólki. Auðvitað eru takmörk. Við ætlum ekki að skattleggja of mikið, við ætlum bara að skattleggja nægilega mikið. Það er nálgunin frá Samfylkingunni. Við viljum réttlátara kerfi. Við viljum að arður af auðlindunum nýtist beint til þjóðarinnar. Það er ekki ósanngjörn krafa.

Auðvitað viljum við að sjávarútvegsfyrirtækjunum vegni vel og við erum stolt af sjávarútveginum. Hann er hagkvæmur og vel rekinn iðnaður. Við ætlum ekkert að breyta því. En eftir stendur að við erum stór sjávarútvegsþjóð. Ísland er í 180. sæti yfir stærð þjóða, en þegar litið er til sjávarútvegs þá erum við 19. sæti. Við erum risavaxin sjávarútvegsþjóð sem hefur náð gríðarlega miklum árangri í sjávarútvegi, hvort sem litið er á uppbyggingu stofna eða hagkvæmni og framleiðni.

Tölurnar og réttlætið kalla á að menn greiði hærra auðlindagjald til þjóðarinnar. Nettóið er 2 milljarðar og það er bara skammarlega lítið.

Við viljum að arðurinn af auðlindum nýtist til að bæta lífskjörin og gera landið okkar ódýrara, betra og réttlátara fyrir alla.

Að lokum er svo margt í þessu frumvarpi sem veldur vonbrigðum. Eða kannski er það bara hætt að valda vonbrigðum vegna þess að þetta var svipað og í fyrra og með fjármálaáætlunina. En það er óþarfi að standa fyrir svona.

Barnafólk, millitekju- og lágtekjufólk, aldraðir, öryrkjar og sjúklingar og þorri almennings er illa svikinn af þessu frumvarpi. Eins og ég gat um áðan gerum við ekki allt fyrir alla. Auðvitað ekki. En það sem við leggjum hér fram er fullkomlega raunhæft, bæði varðandi gjaldahliðina og tekjuhliðina. Allir myndu stækka við þetta og þjóðin myndi fagna því ef við næðum einhverjum sameiginlegum breytingum gagnvart þeim hópum sem ég veit að allir vilja standa vel að.

Það eru 40.000 eldri borgarar í þessu landi, 20.000 öryrkjar, unga fólkið okkar er á erfiðum leigumarkaði. Verkefnin eru næg og þau klárast aldrei, ég veit það alveg. En engu að síður eru tækifæri núna, bæði vegna þess að það er mikill peningur í ríkiskassanum, sem verður ekki endalaust, ég átta mig alveg á því, það eru blikur á lofti. En við getum gert betur. Ég er ekki að tala fyrir einhverjum óábyrgum breytingartillögum eða að hér fari allt á hliðina. Ég veit það ef allt fer á hliðina þá eru það fyrst og fremst lágtekjuhóparnir sem líða fyrir það. Ég veit það alveg. Það er ekki það sem ég er að kalla eftir. Ég er bara að kalla eftir því að við gerum líf fólksins í þessu landi aðeins bærilegra og ódýrara. Og tækifærin eru fyrir hendi. Þá þurfum við að vera hugrökk og styðja eitthvað frá stjórnarandstöðunni og hugrökk að ræða þessar skattbreytingar.

Ég átta mig á að okkur mun greina á um skatta, okkur mun alltaf greina á um þá, en engu að síður er ég bjartsýnn að eðlisfari og tel að við gætum hugsanlega náð einhverri lendingu saman. Ég var með ykkur öllum á kosningafundum fyrir rúmu ári síðan. Við vorum furðusammála, alla vega fyrir kosningar. Höldum áfram að vera sammála eftir kosningar líka. Það er það sem ég er að kalla eftir. Setjum aukna fjármuni í þessa innviði sem þjóðin kaus okkur til að gera. Meira var það ekki, herra forseti.