149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef maður tekur saman þessa ræðu hv. þingmanns og veit lítið um stöðuna almennt myndi maður draga þá ályktun að hér værum við að koma út úr mikilli niðursveiflu og ættum erfitt með að rétta úr kútnum, að fyrir þinginu lægi fjárlagafrumvarp þar sem verið væri að draga saman en ekki að bæta í samneysluna, að á útgjaldahliðinni væri fátt um fína drætti. Staðreyndin er þó sú að fjárlaganefnd, með þeim breytingartillögum sem eru komnar fram, leggur til að útgjöldin vaxi á næsta ári um 4,8%. Þá kemur hv. þingmaður og segir: Þetta er ekki nóg, þetta er ekki nóg. Við þurfum að gera miklu meira. Við þurfum að láta útgjöldin vaxa um 8% — 8% aukningu útgjalda er það sem hv. þingmaður kallar eftir. Svo í næstu setningu segir hann: En takið eftir því að hagspár eru allt of bjartsýnar og hér er ekki á vísan að róa með hagvöxt og við þurfum að gæta okkar og til þess að bjarga afkomunni skulum við smella 33 milljörðum á landsmenn í nýja skatta og gjöld, (Forseti hringir.) miklu meiri útgjöld, (Forseti hringir.) miklu hærri skatta og það er allt að fara til verri vegar. Þetta eru skilaboð Samfylkingarinnar.