149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sá að hæstv. ráðherra fipaðist í reikningi í pontu í gær. Við erum ekki að boða neina 33 milljarða, þetta eru 24 milljarðar sem við erum að tala um, 24–26 milljarðar í skattahækkanir. Við erum ekki að boða þá skatta á landsmenn. Ég gat sérstaklega um það á hvaða hópa þetta væri. Þessar skattahugmyndir fara ekki á hinn almenna Íslending. Þetta er hækkun fjármagnstekjuskatts sem þröngur hópur Íslendinga greiðir. Þetta eru auðlindagjöld sem fá stórfyrirtæki í landinu greiða. Þetta eru erlendir ferðamenn, sem ég veit ekki af hverju hæstv. ráðherra vill sérstaklega huga að hvað það varðar. Við köllum eftir þessum fjármunum til að standa með því sem hann lofaði sjálfur. Við erum ekki, eins og hæstv. ráðherra gat um áðan, að koma úr niðursveiflu heldur erum við einmitt að koma úr uppsveiflu. Þess vegna eru vonbrigðin svo mikil.

Hér er einfaldlega ekki nóg gert, ég er að segja það, hæstv. ráðherra, en það er hægt að gera meira. Ég veit (Forseti hringir.) að ég þarf að fjármagna þessi loforð, ég þarf að fjármagna þau orð mín, en ég geri það með því að hliðra til í skattkerfinu og hækka skatta eða gjöld á þá sem eiga peninga. Þetta eru ekki orðin tóm. (Forseti hringir.) En ég er ekki að tala fyrir því að við hækkum skatta á venjulegt fólk.