149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Einu hugmyndirnar, segir hæstv. ráðherra. Það má kannski gagnrýna að þetta séu of ítarlegar hugmyndir. Túristar á Íslandi gætu greitt meira. Ég hélt að við værum sammála um það. Flokkur hæstv. ráðherra reyndi m.a. að innleiða náttúrupassa til að fá auknar tekjur frá erlendum ferðamönnum. Við erum enn þá með hluta af ferðaþjónustunni í lægra vaskþrepinu. Er ekki rétt munað hjá mér að leyfi í laxveiðiám er meira að segja án virðisaukaskatts? Það er auðvelt að fela sig á bak við litla ferðaþjónustufyrirtækið sem ströglar, en það er fullt af stórum ferðaþjónustufyrirtækjum

Lítum á rútufyrirtækin og fleiri ferðaþjónustufyrirtæki sem gætu borgað meira. Það færi út í verðlagið. Ímyndum okkur komugjald, 1.500 kr. komugjald, tökum það sem dæmi, það er bara ein af hugmyndunum. Það myndi gefa ríkissjóði 4 milljarða. Mun einhver einstaklingur hætta við að koma til Íslands af því að það kostar 1.500 kall meira að koma hingað? Nei. Þetta eru leiðir til að ná í fjármuni til að standa við loforð hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sem lofaði sjálfur í aðdraganda kosninga (Forseti hringir.) um 100 milljarða króna innviðauppbyggingu. (Forseti hringir.) Það er það sem ég er að kalla eftir. (Forseti hringir.) Ég veit ég þarf að fjármagna það með einum eða öðrum hætti og (Forseti hringir.) þess vegna er ég með hugmyndir um (Forseti hringir.) að leita að peningunum þar sem þá er að finna. — Afsakið.