149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ákveða fjárlög næsta árs. Ef við ætlum að setja meiri pening í rekstur, þá er þetta tíminn. Já, þessi breytingartillaga okkar upp á milljarð í hjúkrunarheimili á fara í rekstur hjúkrunarheimila. Reksturinn er algerlega í járnum og þetta eru engin ný tíðindi fyrir neinn sem hefur fylgst með þeim málum. Það er áhugavert, eins og ég gat um áðan, 730 millj. kr. niðurskurður í rekstur hjúkrunarheimila vegna seinkunar á uppbyggingu eru 60 rými í rekstri.

Vonandi fæ ég aðeins skýrari svör núna eða seinna af hverju. Og hver er þessi seinkun? Ég hef heyrt út undan mér að Landspítalinn hafi miklar áhyggjur af þessu. Það getur vel verið að eðlilegar skýringar séu á þessari seinkun, eins og við fengum varðandi uppbyggingu á nýja Landspítalanum. Hér er einhverju ósvarað. Peningarnir, það er lítið mál fyrir hjúkrunarheimilin ef þau fá smá innspýtingu héðan úr þessum sal, þá efa ég ekki í mínútu að þeim peningum væri vel varið til að treysta og tryggja rekstur þeirra hjúkrunarheimila sem eru ekki í góðum málum. Þetta veit hver einasti þingmaður og ekki síst hv. þingmaður.