149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ef umfangið er lítið þá er lítið mál að samþykkja það. Hjúkrunarheimilin fá 1/5 af því sem þau óskuðu eftir á fundi fjárlaganefndar. Það koma þessar 300 milljónir, gott og vel, en þau báðu um 1,5 milljarða og þetta er ekki sú upphæð. Það hljómar eins og há upphæð, 1 milljarður til viðbótar, en hún er það ekki eins og hv. þingmaður gat um sjálfur. Hjúkrunarheimili og samtök þeirra sendu, ég veit ekki hversu margar umsagnir. Við fengum mjög ítarleg gögn og rökstuðning fyrir því af hverju þau kölluðu eftir auknum fjármunum. Af hverju við mætum aðeins 1/5 af þeirri þörf? Af hverju ekki að öllu leyti, ef við erum sammála um uppbyggingu innviða og félagslegan stöðugleika? En við gerum það ekki, ekki að okkar mati og ekki að mati hjúkrunarheimilanna.