149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum í grunninn sammála um að við viljum styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila og byggja þau upp þannig að fólk komist að og ekki verði þeir biðlistar sem hafa verið að byggjast upp. Það er verið að gera það, verið er að fara í átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila.

En svo vil ég benda á að þegar kemur að daggjöldum og rekstrargrundvellinum þá renna samningar út um áramót. Það er auðvitað verkefni sem við vonum að fari vel.

Ég ætla aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður sagði um að við værum ekkert að gera fyrir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Nefndin setti 400 milljónir til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem eru fastar í ramma síðan fyrir ári síðan. Nú setjum við 200 milljónir í tækjakaup. Ég veit að þörf er á miklu meiri peningum en gleymum því ekki að 65 kr. af hverjum 100 kr. fara í velferð í (Forseti hringir.) þessum fjárlögum.