149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. 900 milljarðar fara í eitthvað. Fjárlögin eru upp á það. En hér eru alvarlegir gallar á fjárlagafrumvarpinu, eins og við höfum verið að tala um og ég hef verið að tala um, sem við gætum breytt fyrst við erum svona sammála. Og ég veit að við erum það, ég var aðeins að biðla til þeirra þingmanna sem eru sammála mér, sem ég veit að margir eru.

Ég hef átt þetta samtal ítrekað í fjárlaganefndinni. Við erum með fjárveitingavaldið, ekki ráðherrarnir. Tillögur meiri hluta fjárlaganefndar, sem koma ekki frá ráðherrunum, eru sáralitlar. Þetta eru 5 milljónir í Sögusetur íslenska hestsins, 1,5 milljónir hér, 10 milljónir þar. Þetta eru fáránlega litlar breytingar sem eiga uppruna sinn hjá meiri hluta fjárlaganefndar. Stóru tölurnar koma frá ráðherrunum og ég vil komast upp úr því fari, fyrst við erum svona sammála. Það er ekki eins og frumvarpið hafi verið fullkomið þegar það kom fyrir tveimur mánuðum. Af hverju þurfum við að kyngja svo miklu frá ráðherrunum, sérstaklega ef við erum virkilega sammála um stór atriði? (Forseti hringir.)

Ég veit að þetta er ekki nýr vandi en fjárlaganefnd á að taka sér miklu meira (Forseti hringir.) vald í að rýna og krítisera fjárlagafrumvarpið.