149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um þessa útgjaldabrú, þá gat ég ómögulega fundið það þegar útskýring kom á því hvert þessi peningur ætti að fara, í þetta eða hitt verkefnið, ég vissi ekkert á hvaða lykil hann fór, í hvaða málaflokk hann fer eða eitthvað því um líkt. Þegar ég geri breytingartillögur þá get ég illa rakið mig í því hvert eigi að fara. Það er meira að segja ómögulegt í sumum tilvikum, þar sem ég finn ekki í hvað peningur á að fara. Ef ég ætla að taka hann frá, veit ég ekkert frá hvaða málaflokki ég er að taka þær fjárheimildir. Það er ómögulegt, að sjálfsögðu.

Þegar verið er að leggja fram sundurliðun á bundnu útgjöldunum og útgjaldasvigrúminu þarf það að koma fram í hvaða málefnasvið, málaflokk o.s.frv. hver sundurliðun á að fara. Þetta þarf bara að liggja skýrt frammi í mjög skýrri töflu. Ég held að ástæðan fyrir því að við lendum ítrekað í þessu — eins og með nefndarálitið sem hv. formaður fjárlaganefndar minntist á að væri í skjalavinnslunni, reynt væri að bæta við einhvers konar nánari útskýringum — sé þessi stutti tími sem okkur er alltaf gefinn. Það sem við þingmenn getum aðeins sagt er: Nei, fyrirgefðu.

Ég veit að forseta er rosalega annt um að standast einhverja starfsáætlun o.s.frv. en við verðum líka að gera þetta vel. Það að gera þetta vel þýðir það tvímælalaust líka, eins og þeir sem eru að skila minnihlutaáliti, að geta farið yfir meirihlutaálitið og séð allar forsendurnar sem lagt var upp með til að vera þá jafnvel sammála.

Við erum nefnilega á ákveðnum krossgötum í þessu ferli um lög um opinber fjármál. Þetta er í fyrsta sinn sem við náum þetta langt inn í ferlið og við erum bara á fyrsta ári af fimm. Það er rosalega mikilvægt að þingmenn, sérstaklega nefndarmenn í fjárlaganefnd, komi og taki aðeins umræðuna um lög um opinber fjármál. Hver er staða okkar gagnvart þeim lögum núna (Forseti hringir.) með tilliti til einmitt fjárveitingavaldsins og fleira sem er svo nauðsynlegt til að halda (Forseti hringir.) þeim aga sem talað hefur verið um.