149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta. Ég spurði fjármálaráðherra einmitt að þessu, í rauninni eftir ábendingar fjármálaráðs. Fjármálaráð hefur komið inn á það í umsögnum sínum að það sé alveg í sjálfsvald ríkisstjórnar sett hvert svigrúmið á að vera. Fjármálaráðherra túlkar þetta viðmið sem gólf eða hærra. Það má skila 1%, 2, 3, 4, 5% í afgang en ekki lægra. Það hefur komið skýrt fram í svörum ráðherra. Það yrði þá bara næstu ríkisstjórnar að setja sér viðmið, 1–2%, að ætla hvorki að fara umfram það til að halda ákveðnum aga né undir.

Miðað við lögin, þá held ég að þau leyfi það svigrúm í rauninni til að stjórnvöld geti sett sér afkomuviðmiðin eftir eigin höfði, þess vegna í mínus eða plús, og það kemur bara álit miðað við það frá fjármálaráði um hvað það þýði fyrir framhaldið, hvað það þýði fyrir hagkerfið o.s.frv. Ég held að það sé ekki flókið í þessu tilviki. Fjármálaráðherra hefur gefið það skýrt út að 1% er það sem ríkisstjórnin og stjórnvöld ætla að halda sig við, jafnt og/eða yfir það. Þar ber ríkisstjórninni náttúrlega að stilla til aðgerðum til að ná því markmiði.