149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:35]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður ræðir mikið formið í ræðu sinni. Við erum að taka lög í notkun um opinber fjármál og formið er tengt því.

Mig langar að spyrja varðandi minnihlutatillöguna frá hv. þingmanni um að lækka óútskýrðar fjárlagaheimildir um allt að 8,2 milljarða sem verður fyrst á málefnasviði 27, Örorka og málefni fatlaðs fólks, rúmir 5 milljarðar, og síðan á málefnasviði 24, Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa, rúmlega 1.300 milljónir. Getur hv. þingmaður farið aðeins í gegnum hvað stendur á bak við?

Svo kannski almennt um pólitíkina í fjárlagafrumvarpinu. Það er 4,8% aukning í rammanum, hækkun. Við höfum séð undanfarin ár 7–8% hækkun milli ára að raungildi, þannig að þetta er fjórða árið í röð þar sem eru umtalsverðar hækkanir í fjárlagafrumvarpinu. Mig langar að fá skoðun hv. þingmanns á því hvernig hann sé fyrir sér þær gríðarlegu hækkanir sem hafa orðið í ríkisrekstrinum, þær fjárveitingar. Hvað finnst hv. þingmanni um þá þróun undanfarinna ára? Það væri fínt að fá það fram, það sem snýr að þessu hefur kannski ekki verið rætt mikið í gegnum tíðina.