149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:39]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hugsanlega misskil ég málið eitthvað. Það kemur fram að verið sé að tala um að taka út 5 milljarða af málefnasviði sem snýr að örorkumálum en ég get ekki betur séð en að verið sé að tala um að bæta 13–14 milljörðum í fæðingarorlofið. Það snýr ekki að örorku, krónu á móti krónu, þannig að ég átta mig ekki alveg á samspili hluta í álitinu. Það kemur fram á einum stað að lækka eigi um 5 milljarða til örorkumála en svo á að bæta 13 milljörðum í fæðingarorlofið. Það er hugsanlega einhver skekkja sem ég átta mig ekki alveg á í því ferli og væri ágætt að fá það fram.

Ég held að ljóst sé í áliti meiri hluta að þegar menn skoða undanfarin ár og þróun, t.d. í örorkumálum og málum eldri borgara á síðustu árum, þá hafa verið umtalsverðar hækkanir, bæði í prósentum og milljarðatugum. Ég held að það hafi náð alveg nýjum hæðum í Íslandssögunni, það hversu vel hefur gengið að bæta í þau góðu málefni.

En þetta er það sem ég þarf að fá á hreint, hvert verið er að fara í minnihlutaálitinu varðandi örorkuna og síðan aftur hina gríðarlegu viðbót í fæðingarorlofið á móti.