149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni prýðisræðu. Hann fór eðli málsins samkvæmt í 60 mínútna ræðu, rúmlega, yfir margt.

Ég ætla í fyrra andsvari að koma inn á það sem hv. þingmaður varði drjúgum hluta sinnar ræðu til að fara yfir og ræddi áhyggjur sínar af auknu umfangi í ríkisrekstri. Hann dró fram góða umsögn Samtaka atvinnulífsins, m.a. um útgjöld. Það má varpa upp þessari mynd af þróun útgjalda með margvíslegum hætti en 38 kr. af hverjum 100 kr. í hagkerfinu eru frá hinu opinbera.

Við erum að auka útgjöld til flestra málefnasviða. Það segir okkur jafnframt að við þurfum enn og frekar inn í framtíðina að forgangsraða. Við erum að fjárfesta mest í velferð, menntun og samgöngum. Ef við tökum vaxtagjöldin inn í þetta erum við komin í 80% af útgjöldunum. Ég minni á að málefnasviðin eru 34 og málaflokkarnir rúmlega 100.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Með sama áframhaldi og þróun í velferð hjá eldri borgurum og öryrkjum, hjá þessum stóru hópum, munu þessi útlit bara aukast. Hvernig ætlar hv. þingmaður á sama tíma að ráðstafa útgjöldum í aðra málaflokka? Hvernig sér hv. þingmaður þessa forgangsröðun?