149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir andsvarið og nota tækifærið og þakka honum fyrir ágæta verkstjórn í fjárlaganefnd, það er gott að starfa með honum í þeirri nefnd. Þótt ég sé í minni hluta og ekki sammála öllu sem þar fer fram var starfið gott í nefndinni. Ég nota þetta tækifæri og þakka honum fyrir það.

Forgangsröðun er að sjálfsögðu afar mikilvæg og ég tek undir það með hv. þingmanni að það er vissulega áhyggjuefni hvernig þróun ríkisútgjalda er. Hann nefndi öryrkja sem dæmi. Ef fram heldur sem horfir verða útgjöld til öryrkja árið 2030 komin í 90 milljarða. Það sýnir að það þarf að ráðast í verulega endurskoðun á þessu kerfi. Kerfið verður náttúrlega ekki sjálfbært ef það heldur áfram að þenjast út, ef útgjöldin aukast svona gríðarlega. En á móti kemur að það eru jákvæðar fréttir eins og lækkun á skuldum ríkissjóðs. Vaxtagjöldin eru enn þá há.

Varðandi þetta sem ég kom inn á með ríkisbáknið er það stór hluti af þessu líka. Maður spyr sig: Þarf það að breyta velferðarráðuneytinu og stokka þar aðeins upp að kostar rúmar 200 milljónir? Það er verulega há upphæð og maður spyr sjálfan sig: Hver er ávinningurinn? Er þetta nauðsynlegt? Þarna finnst mér forgangsröðunin ekki vera rétt, af því að hv. þingmaður spurði um hana, bara svo ég taki eitt dæmi. Þessa fjármuni hefði t.d. verið hægt að nýta til þess, eins og ég nefndi í minni ræðu, að koma til móts við skjólstæðinga ráðuneytisins. (Forseti hringir.) Það er af mörgu að taka og þetta er stórt og mikið verkefni en nauðsynlegt að ráðast í það.