149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Að fjármagna samgönguverkefni er stórt og mikið mál sem við erum stöðugt að kljást við. Þetta er mjög þörf umræða vegna þess að við sjáum að nú eru fleiri að skipta yfir í rafbíla, sem er jákvætt. Þar stöndum við frammi fyrir því að gjöldin eru afar lág af þessum bílum. Þar koma ekki inn gjöld til að standa undir samgönguframkvæmdum í landinu. Fjármálaráðherra hefur komið inn á það að þetta verði að skoðast heildstætt. Það þarf að móta einhverja stefnu ef rafbílavæðingin kemur til með að ganga það hratt að við sjáum fram á verulega skerðingu á tekjustofnum til að fara í vegaframkvæmdir. Þá þarf að bregðast við með ákveðnum hætti í þeim efnum.

Varðandi innheimtuna á kolefnisgjaldinu byggist breytingartillaga Miðflokksins á því að þær skörpu hækkanir sem hafa verið á gjaldinu komi ekki til framkvæmda vegna þess að gjaldið eins og það er sett upp núna kemur mjög misjafnlega niður á borgurum þessa lands. Við sjáum það bara að þetta kemur mun verr niður á þeim sem búa á landsbyggðinni en þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu og ég fór yfir það í minni ræðu. Auk þess, varðandi t.d. skipaflotann eins og ég nefndi áðan, koma hér skemmtiferðaskip, flutningaskip og önnur slík sem greiða ekki gjaldið. Erlend fiskiskip sem fá samkvæmt leyfum að veiða hér borga ekki gjaldið. (Forseti hringir.) Aðstöðumunur í þessum atvinnugreinum er það mikill að samkeppnin skekkist. Það er nauðsynlegt að skoða þetta heildstætt í þeim efnum.