149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:52]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að bregðast við einum þætti í nefndaráliti sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson hefur flutt fyrir hönd Flokks fólksins. Það varðar sölu og/eða uppboð á losunarheimildum Íslands. Það er sem sagt ein losunarheimild, hún jafngildir heimild til að losa eitt tonn af koldíoxíði á tilteknu tímabili. Það er mikilvægt að menn taki eftir því, á tilteknu tímabili. Þessar heimildir safnast ekki saman upp frá ári til árs, heldur skal, og ég tvítek það, skal bjóða heimildir upp samkvæmt lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Þetta er boðið upp á sameiginlegum markaði Evrópusambandsins. Og af hverju er það skylt? Það er til þess að það myndist verð á losunarheimildir sem svo dragast saman á hverju ári til að tryggja að verðið á þeim hækki með tímanum og það verði dýrara að blása út koldíoxíði. Það er ekki svo að rugla megi þessu saman við skyldur okkar í Parísarsamkomulaginu þar sem okkur er skylt að greiða sektir ef við stöndumst það ekki. Það er sem sagt ekki þannig (Forseti hringir.) að þetta safnist upp og það er ekki þannig að við séum að sólunda verðmætum.