149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni ræðuna, prýðisræðu, og ætla að þakka honum jafnframt fyrir samstarfið í fjárlaganefnd við undirbúning og umfjöllun þessa frumvarps sem við ræðum hér í 2. umr.

Ég ætla að spyrja út í þann kafla í ræðu hans og í nefndaráliti sem heitir: „Virða þarf 1% markmið um afgang af fjárlögum.“

Við erum sammála um að virða markmiðin, en ég vil spyrja hv. þingmann um tengslin við lög um opinber fjármál, og vísa þá til 6. gr. og 7. gr., um grunngildi og fjármálaskilyrði, og svo 4. og 5. gr., um fjármálastefnu og áætlun, og hversu heilög við erum með þessi markmið og ósveigjanleikann sem þetta hefur verið gagnrýnt fyrir þegar kemur að hagstjórn.