149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek fram að ég áttaði mig á því að flokkur hv. þingmanns leggur fram þessar hófstilltu breytingartillögur. Það er rétt. En hins vegar tekur hann undir til að mynda athugasemdir Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um hækkun daggjalda um allt að 30%, sem væru 10 milljarðar, útgjöld til vegamála upp á tugi milljarða o.s.frv. En hvergi koma fram hugmyndir um með hvaða hætti ætti að ná þeim tekjum inn eða hvar ætti að spara á móti. Það er ágætt, skynsamlegt og mikilvægt að tala um ábyrgð, en maður verður líka, ég vil meina það, að ef maður er að viðra eða leggja fram hugmyndir um aukin útgjöld eða að mikilvægt sé að leggja til aukin útgjöld, þá verða að koma a.m.k. fjáröflunartillögur á móti eða, ef menn vilja það frekar, niðurskurðartillögur.