149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það er einu sinni þannig að í flóknu þjóðfélagi eins og okkar eru víða miklar þarfir. Það er kallað mikið eftir þjónustu. Við þekkjum það að framfarir í læknavísindum og lyfjaþróun framkalla kröfur um aukna þjónustu, aukna lyfjameðferð og annað og allt þetta kostar mikla peninga. Ætla verður að það sé þingmönnum heimilt, herra forseti, að fjalla um slík mál í ræðum á Alþingi og jafnvel í umræðum um fjárlagafrumvarp án þess að þeir séu krafðir einhverra reikningsskila um hvað þetta eigi að kosta í einstökum atriðum eða hvaða tillögur þeir hafi fram að færa varðandi breytingar. Það liggur fyrir að hv. þingmaður er stuðningsmaður ríkisstjórnar sem hefur ákveðna forgangsröðun. Ég hef lýst mig ósammála þeirri forgangsröðun í einstökum atriðum (Forseti hringir.) og hef farið yfir það með málefnalegum og yfirgripsmiklum hætti.