149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þar hitti hv. þingmaður naglann á höfuðið. Hann hefur góðan bandamenn í þeim sem hér stendur í þessu máli. En þetta svar um að það sé svo dýrt að afnema þetta er það sem ég botna ekki í vegna þess að það hlýtur að koma á móti þegar fólk fer að vinna og borga skatt, þá rennur það til ríkissjóðs. Það er svona einfalt í mínum huga.

En mig langar að spyrja líka út í annað. Ég gladdist mikið yfir því að sjá að það er verið að setja peninga í SÁÁ sem ég hef verið að berjast fyrir auk held ég flestra annarra hér inni. Fjárþörfin var einhvers staðar á milli 200 og 300 milljónir, er um 200 milljónir, en þarna er talað um 150 milljónir. Þetta er eins og að kasta bjarghring út í sjó en það er ekki spotti í hringnum. Gat fjárlaganefnd ekki bara komið sér saman um það þverpólitískt að hafa þetta nógu mikið? Hvernig stóð á því að það var ekki hægt?