149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er í raun og veru að vekja athygli á mjög áhugaverðu málefni sem er það kostnaðarmat sem kemur fram af hálfu opinberra aðila þegar hér er hreyft einhverjum baráttumálum, að ég ekki segi málum sem stefna að auknu réttlæti og jöfnuði í samfélaginu. Ég leyfi mér að nefna það að þegar frítekjumarkið hefur verið mest til umræðu hefur verið kastað fram af hálfu fjármálaráðuneytisins og einstökum fjármálaráðherrum á undanförnum árum alls konar tölum um þetta. En þegar leitað er eftir óháðu sérfræðiáliti kemur í ljós að þetta kostar ekki neitt. Sömuleiðis þegar það er uppi að tekjur undir framfærsluviðmiðum séu ekki skattlagðar er því grýtt framan í landslýð að það kosti 150 milljarða. En þegar að er gáð og fengnir óháðir, hlutlausir sérfræðingar sem hafa kunnáttu og vit til að fjalla um þessi mál (Forseti hringir.) kemur í ljós að það að gera þetta kostar álíka og kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar.