149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í 2. umr. Ég verð að viðurkenna að mig hryllir aðeins við þegar ég sé klukkuna hér fyrir framan mig: 60 mínútur. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Ég þarf ekkert endilega að nýta þær allar, ég átta mig alveg á því. Mér þætti vænt um, af því að ég veit að fjármálaráðherra er í húsi, ef ég gæti fengið hann til þess að sitja undir leiðindum mínum, alla vega í einhverjar mínútur, þá væri ágætt ef hægt væri að hnippa í hann.

Það er dálítið áhugavert að horfa á þær breytingar sem þetta fjárlagafrumvarp hefur tekið núna við 2. umr. og í raun og veru að horfa upp á ríkisstjórn sem sagst hefur ætla að leggja höfuðáherslu á velferðarmál varla eyða fimm mínútum, að því er virðist, í að reyna að komast hjá því að skera niður loforð hér á milli umræðna jafnharðan og skórinn kreppir örlítið að.

Endurmatið hjá Hagstofunni, sem kom í byrjun nóvember, þar sem fram kom að ljóst væri að verðbólgan myndi aukast, myndi kallast svona örlítið hikst í hagkerfinu, ekki mikið meira en það, smávægilegur hnerri. En þessi hnerri kostaði ríkissjóð 6 milljarða kr. sem ríkisstjórnin þurfti að grípa til aðgerða vegna til að bregðast við. Aðgerðirnar fólust í einföldu máli í því að skera niður fyrri loforð um útgjaldaaukningu í heilbrigðis- og velferðarmálum um 7 milljarða og bæta síðan við nokkrum gæluverkefnum sem ég kem kannski nánar að síðar. Það væri kannski ekkert stórkostlegt áhyggjuefni þannig séð ef við horfðum ekki til þeirrar einföldu staðreyndar að áfram munum við samt vinna með mjög bjartsýnar horfur í ríkisfjármálum, ég myndi segja óraunhæfar horfur í ríkisfjármálum, og þarf kannski ekki mikið að velta því fyrir sér ef yfir það er sest.

Hér kom Hagstofan með hagspá síðastliðið vor þar sem gert var ráð fyrir 2,7% hagvexti og 3% verðbólgu. (Gripið fram í.) Nú fáum við hagspá í nóvember þar sem gert er ráð fyrir 2,5% hagvexti og 3,6% verðbólgu. Hvað hefur gerst í millitíðinni sem ekki var í umræðunni í vor þegar Hagstofan gerði fyrri spá sína? Við erum með annað stærsta flugfélag landsins sem fór nánast á hausinn og sér ekki alveg fyrir endann á því hvort tekist hafi að bjarga málum þar en vonandi tekst það. Þetta flugfélag flytur um 35% farþega til og frá landinu. Búið var að vinna sviðsmynd af því hvað það myndi þýða fyrir hagvöxt ef allt færi á versta veg. Sú mynd er ekki sérlega hugguleg.

En það er ekki það eina. Krónan er búin að falla um 15% með tilheyrandi væntingum um verðbólguauka. Það má víst ekki ræða það mikið að krónan sé að falla en hún féll samt. Þetta 15% fall eitt og sér miðað við hefðbundin áhrif krónunnar á verðbólgu þýðir um það bil 5% viðbótarverðbólguskot við það sem þegar er undirliggjandi í pípunum hjá okkur. Þess vegna held ég að hagspá Hagstofunnar um 3,6% verðbólgu á næsta ári sé fullkomlega óraunhæf, enda gerir hún ráð fyrir því að krónan verði umtalsvert sterkari á næsta ári en hún er í dag. Hún sýnir litla tilburði til þess, í það minnsta í punkti.

Það er líka ágætt að hafa það í huga þegar horft er til verðbólguhorfa á næsta ári að skilyrði ytra hafa verið að versna. Það hefur hægt á hagvexti í nágrannalöndunum í kringum okkur. Það hefur dregið úr þeim miklu umsvifum sem hafa verið í hagkerfinu á undanförnum misserum og við þær kringumstæður er alltaf hætta á því að kostnaðarhækkanir liðinna missera ýtist líka út í verðlagið. Þannig að ég held að það sé frekar varfærið að gera ráð fyrir því að verðbólgan á næsta ári verði meiri en minni.

Þá látum við alveg ónefnda þá miklu óvissu sem er í kringum kjaraviðræður og þann kostnaðarauka og verðbólguáhrif sem kjarasamningar á nýju ári kunna að hafa. Verulega hefur hægt á einkaneyslu. Allar horfur eru á því að svo verði áfram, enda hafa verðbólguáhrifin áhrif til þess einmitt að hægja á þessari sömu einkaneyslu. Verðbólgan þýðir stóraukna greiðslubyrði lána og auðvitað hærra vöruverð og minni neyslu en ella. Það höfum við séð allt saman áður. Bílasala hefur dregist saman um tugi prósenta í haust. Það er eitt skýrt merki um hvernig tekið er að hægja á hagkerfinu. Þrátt fyrir mikinn vöxt í ferðaþjónustu að undanförnu sjáum við engu að síður að afkoma greinarinnar er að meðaltali heldur slæm. Meðaldvalartími ferðamanna hefur styst verulega. Neyslumynstur þeirra hefur breyst verulega og svo má áfram telja. Og til að bæta enn við í þetta svartsýnisraus mitt eru slæmar horfur varðandi uppsjávarveiðar, loðnu og makríl á næsta ári.

Ég er ekki að reyna að spá hér einhverjum hamförum í hagkerfinu, þvert á móti. Við stöndum um margt mjög sterkt. Við eigum meiri eignir erlendis en skuldir, sem er nýmæli í íslensku hagkerfi, og engin ástæða til að vera of svartsýn þó svo að þrengja sé tekið að hjá okkur. En það verður hins vegar að segja að það er algerlega óraunhæft að ætla að hagvöxtur verði hér áfram á fullu gasi næstu fjögur, fimm árin, eins og bæði þessi hagspá gerir ráð fyrir og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég held þvert á móti að það sé að rætast sem við í Viðreisn og fleiri vöruðum við í umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og við 1. umr. fjárlagafrumvarpsins, að við þær aðstæður sem eru í hagkerfinu í dag sé full ástæða til að gæta varúðar. Full ástæða er til að hafa vaðið fyrir neðan sig, hafa eitthvert svigrúm í ríkisfjármálunum, en á þau varnaðarorð hefur ekki verið hlustað.

Þess vegna held ég að vandi ríkisstjórnarinnar, þegar kemur að því að svíkja þau loforð sem gefin hafa verið í fjármálaáætlun hennar, sé bara rétt að byrja. Við munum sjá raðsvikin kosningaloforð á næsta ári þegar kemur að því að móta hér nýja fjármálaáætlun, hvað þá fjárlagafrumvarp næsta árs. Ofan á það mál má síðan bæta við gagnrýni Seðlabankans á það að einmitt hin mikla útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar hafi valdið aukinni þenslu, ekki stutt við peningastefnu bankans og m.a. átt sinn þátt í því að bankinn hækkaði vexti með tilheyrandi kostnaði fyrir fyrirtæki og heimili.

Það er alveg magnað að horfa upp á það eftir alla þessa umræðu eftir hrun um mikilvægi þess að ríkisfjármálin styðji við hagstjórnina á hverjum tíma að á það hefur ekkert verið hlustað af þessari ríkisstjórn. Við höfum búið til afskaplega fallegan ramma utan um fjárlagagerðina en ég myndi segja að við værum að vinna af alveg nákvæmlega sama fúski og áður. Þau fjárlög sem við ræðum hér bera ekki með sér neinn sérstakan vitnisburð um mikla eða góða yfirsýn ríkisstjórnarinnar yfir ríkisreksturinn. Þar er ekki að finna nein merki um ráðdeild í rekstri. Þar er ekki að finna nein merki um að sérstök áhersla sé á hagkvæmni í rekstri og þar er heldur ekki að finna neitt sérstaklega skýr markmið. Það er reyndar bara afskaplega erfitt að sjá hver markmið ríkisrekstrarins eru í þeim hundruðum síðna sem fjárlagafrumvarpið telur. Ég kem nánar að því síðar.

Það sem mér þykir vera sérstakt áhyggjuefni er að hér er unnið eftir stefnu þar sem grunnkostnaður ríkissjóðs hækkar verulega þar sem stefnt er að því að útgjöld ríkissjóðs á mann vaxi úr 2,3 millj. kr. í 2,7 millj. kr. á næstu árum, tæplega fimmtungsaukning. Ég segi: Það er ekki innstæða fyrir því. Við töluðum um það í Viðreisn í vor að þetta væri óraunhæf áætlun og byggði á ákveðinni óskhyggju. Ég held að kalla megi þetta draumsýn eða jafnvel veruleikafirringu þegar komið er inn í haustið og við sjáum hversu hratt er að kólna í hagkerfinu.

Förum aðeins yfir einstaka þætti. Tölum aðeins um velferðarmálin og tölum um örorkuna þar sem lagt var upp með áform um að auka sérstaklega við 4 milljörðum til málaflokksins til að hefja kerfisbreytingu örorkulífeyriskerfisins. Það eru breytingar sem við öll í þessum sal höfum verið ákaflega sammála um að sé mikilvægt og nauðsynlegt að ráðast í og sem þarf kannski ekki að flækja óþarflega mikið í fyrstu lotu en segja einfaldlega: Hér er hægt að ráðast í að afnema krónu á móti krónu skerðinguna, stíga í það minnsta fyrstu skrefin þar sem allir virðast vera sammála, allir stjórnmálaflokkar hafa lýst sig sammála því að sé einn mikilvægasti þátturinn í endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Og af hverju? Örorkulífeyriskerfið verður að vera með réttu hvatana innbyggða. Við sjáum hér nýgengi örorku eða aukningu og fjölgun örorkulífeyrisþega á undanförnum árum, sem er algjörlega ósjálfbær til lengri tíma litið og ber þess svo skýrt merki að þetta lífeyriskerfi okkar er algerlega gjaldþrota. Endurskoðun þess er fullkomlega nauðsynleg.

Það eru alveg sérstaklega mikil vonbrigði að horfa upp á það við þær kringumstæður að ríkisstjórnin hafi ekki kjark til þess að stíga fyrstu skrefin. Að hér skýli menn sér á bak við það að vinna við endurskoðun hafi tafist og þess vegna eigi að skera útgjaldaáformin niður um 1,1 milljarð kr. En samt er einhvern veginn reynt að búa svo um hnútana eða talað um að þetta sé enginn niðurskurður. Það er algerlega fáránlegur málflutningur. Þegar maður tekur 4 milljarða og sker niður í 2,9 milljarða er alveg augljóst að einhverjir hljóta að fá minni pening á næsta ári en þeir hefðu ella fengið. Það kalla ég niðurskurð. Það eru einhver leiktjöld dregin yfir hitt ef halda á því fram að af því að þessu sé mögulega lofað í fjármálaáætlun fyrir árið 2020 sem varanlegri aukningu sé þetta í raun og veru enginn niðurskurður. Ég held að við getum öll verið sammála um að örorkulífeyrisþegar hljóta að fá minna í sinn vasa á næsta ári sem því nemur. Það getur ekki orðið öðruvísi.

Það má vel vera, eins og komið hefur fram gagnrýni um, m.a. af hálfu fjölmargra fjárlaganefndarmanna, að útgjaldamarkmið ríkisstjórnarinnar í örorkulífeyrismálunum hafi einfaldlega verið allt of óljós, þau hafi í raun og veru ekki verið tæk. Það er alveg rétt að það er í sjálfu sér hægt að taka áætlun eins og þessa 4 milljarða aukningu og slumpa á hana í fjármálaáætlun. En það er líka alveg rétt að það er ekki tæk nálgun þegar kemur inn í fjárlagafrumvarpið sjálft. Þar þarf ráðherra auðvitað að fylgja eftir áformum sínum með einhverri áætlun um hvaða breytingar hann ætli að gera og hvað þær muni kosta. Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni. En það hefði verið hægur vandi af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. félagsmálaráðherra að leggja einfaldlega upp í þá vegferð að segja: Við ætlum að stíga fyrstu skrefin í afnámi á krónu á móti krónu skerðingunni og þau skref verða stigin frá miðju næsta ári eða eitthvað þess háttar. Ég held að 4 milljarðar hefðu áreiðanlega nýst vel í þau markmið.

Annar þáttur í þessu er uppreikningur á bótafjárhæðunum. Það er alveg sérstakt og í raun skammarlegt að horfa upp á að eldri borgarar og örorkulífeyrisþegar séu látnir sitja eftir með skertan hlut. Þegar við horfum á verðbólguvæntingar fyrir næsta ár, þegar við horfum á verðbólguspár fjölmargra aðila fyrir næsta ár, þegar við horfum á hið augljósa, að krónan hefur veikst um 15% og horfur á umtalsverðri verðbólgu að óbreyttu, af hverju í ósköpunum er þá hætt við að segja að eldri borgarar og örorkulífeyrisþegar skyldu njóta 0,5% kaupmáttaraukningar á næsta ári sem var þó ekki mjög rausnarlegt framlag? Upprunalegu áformin voru 2,9% verðbólga og 0,5% kaupmáttaraukning, 3,4% hækkun í það heila.

Svo kemur ný verðbólguspá. Hún er 3,6% og þá er kaupmáttaraukningin skorin burtu „med det samme“, fyrirgefðu, herra forseti. Það gerir það eiginlega enn verra þegar kemur í ljós að þegar farið er yfir endurmat á útgjöldum ríkisins á milli 1. og 2. umr., að kostnaðurinn t.d. af ellilífeyriskerfi okkar á þessu ári hefur verið heldur minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það var fullt svigrúm í þeim tölum til að bæta ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegum upp mismuninn, að halda að lágmarki þessari 0,5% kaupmáttaraukningu inni.

Ég held að það sé full þörf á að miða við að verðbólguhorfurnar geti verið umtalsvert verri en þau 3,6% sem talað hefur um. Fljótt á litið sýndist mér að slík breyting hefði kostað 750 millj. kr. eða þar um bil. Það er lægri tala en endurmatið á ellilífeyrisútgjöldum þessa árs er í það heila. Ríkisstjórnin hafði efni á því að láta áformaða kaupmáttaraukningu standa. Hún tímdi því ekki. Það er ekki flóknara en það. Við látum ömmu og afa bíða. Það finnst mér óttalega nánasarlegt. Það er í raun og veru, eins og hefur gjarnan gerst þegar kemur að uppreikningi bótafjárhæðanna, að kaupmætti ellilífeyris- og örorkulífeyrisgreiðslna er leyft að dala yfir löng tímabil af því að það hafi einhvern tímann eitthvað verið gert svo gott og mikið. Og svo þarf að lyfta grettistaki aftur þegar staðan er orðin algjörlega óbærileg.

Það er staðan sem við vorum í hér í aðdraganda kerfisbreytinganna 2016. Þær kerfisbreytingar tókust mjög vel, sérstaklega gagnvart eldri borgurum, en um leið leggur það á okkur þær skyldur á herðar hér inni að halda kaupmætti þeirra lífeyrisgreiðslna áfram. Ekki leyfa þeim að dala síðan að nýju, sér í lagi þegar verðbólgan fer að gera vart við sig á nýjan leik.

Ég vona að við berum gæfu til að laga þetta milli 2. og 3. umr. Það er síðan annar þáttur sem veldur mér ámóta miklum vonbrigðum þegar kemur að velferðarmálunum. Það eru framkvæmdir varðandi hjúkrunarheimili. Búið er að benda okkur á það ítrekað árum saman að við séum langt á eftir áætlun í uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir eldri borgara þessa lands. Fram kom í því mati sem Landspítalinn kynnti fyrir hv. fjárlaganefnd hér í haust, það er sennilega tveggja ára gamalt, að þá hefði þörfin verið a.m.k. 470 ný rými á tímabilinu 2016–2018. Ég held að ég fari rétt með. Af því höfum við byggt um það bil helminginn. Hvernig bregðumst við við slíkum fréttum hér? Við skerum niður áform okkar um uppbyggingu hjúkrunarheimila á næsta ári um milljarð. Sá niðurskurður samsvarar um það bil 30 nýjum hjúkrunarrýmum. Sá kostnaður endar einhvers staðar. Það er alveg augljóst.

Við erum með fráflæðisvanda á Landspítalanum sem er okkur mjög kostnaðarsamur. Sú sjúkrastofnun getur ekki hent gömlu fólki út. Það er ekkert flókið. Fólkið situr þar fast og fær hvergi hjúkrunarrými. Af því hlýst líka kostnaður. Það er enginn sparnaður í ríkisrekstrinum, það er engin ráðdeild og yfirsýn eins og menn myndu hátta góðum og skynsamlegum rekstri. Þvert á móti er mun dýrara að sinna þjónustu við eldri borgara sem vantar hjúkrunarrými inni á Landspítala en nokkurs staðar annars staðar. Við sjáum það m.a. í kostnaðartölum fyrir rekstur Vífilsstaða sem reknir eru, að ég hygg, á um það bil 50% hærra daggjaldi en önnur hjúkrunarrými á landinu. Það er ótrúlega óskynsamleg fjármálastjórn af hálfu stjórnvalda. Þarna verður einfaldlega að lyfta grettistaki af því að við sjáum líka að sá hópur sem er líklegur til að þurfa á þjónustu sem þessari að halda á næstu árum fari mjög ört stækkandi bara á næstu fimm árum. Við verðum einfaldlega að ná í skottið á okkur í þeirri uppbyggingu.

Því miður mistókst okkur algerlega í uppsveiflu liðinna ára að ná að vinna upp þann biðlista sem hér var að byggjast upp. Það fjölgaði um 20% á biðlista eftir dvöl á hjúkrunarheimili á síðastliðnum 12 mánuðum, það eru liðlega 100 manns eða þar um bil, bara hér á suðvesturhorninu eða í Reykjavík frá því í september í fyrra. Við getum ekki beðið lengur með þetta og hefði að mínu viti vel verið hægt að finna önnur verkefni til þess að ráðast í úr því að þau verkefni tefjast sem þessum fjármunum var varið til. Það kemur mér reyndar svolítið á óvart í þessari umræðu allri. Ég man ekki til þess í eitt einasta skipti í umræðu fjárlaganefndar í haust, sem telur líklega 55 tíma í gestakomum, að varað hafi verið við því að þessar framkvæmdir myndu tefjast. Það eru algerlega nýjar fréttir.

Mér finnst þetta vera svona hentiskýring á því að ríkisstjórnin þurfti allt í einu að skera niður. Þá voru skyndilega framkvæmdir við hjúkrunarheimili að tefjast og eins framkvæmdir við Landspítalann. Það er voðalega þægilegt. En ég man ekki til þess að nein sérstök umræða hafi verið um það fyrr varðandi opinberar framkvæmdir að útgjöld eða fjárheimildir til þeirra hafi verið skornar niður að mögulega kynnu þær að tefjast á næsta ramma. Það er líka alveg mögulegt að hægt sé að vinna upp einhvern slíkan slaka eða það leysist úr málum. Gerist það verður einfaldlega ekkert fjármagn til staðar í fjárlögum næsta árs til að bregðast við og halda áfram með verkefnið af því að búið er að skera það niður. Það er skammarlegt af því að þarna er mjög brýn þörf.

En þetta allt saman sýnir mér líka það sem ég held að sé stærsti vandi okkar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, þ.e. hvar heildaryfirsýnin er í heilbrigðiskerfinu. Hún sést ekki í þessu fjárlagafrumvarpi. Ítrekað hefur verið sagt, bæði í úttekt McKinseys og með endurteknum aðvörunum fyrrverandi landlæknis, að vandamál heilbrigðiskerfisins verði ekki bara leyst með auknu fjármagni, þar þurfi stórbætt skipulag heilbrigðiskerfisins og einhvers konar heildaryfirsýn yfir heilbrigðiskerfið. Ég sé ekki þá sýn hér. Við vitum t.d. mætavel að ýmiss konar forvarnir í heilbrigðiskerfinu getað sparað okkur stórfé þegar fram í sækir.

Einfaldar aðgerðir: Hreyfikort fyrir eldri borgara, aukin áhersla á geðheilbrigðisþjónustu, aukin áherslu á jafningjaúrræði, eins og t.d. Hugarafl, aukin áhersla á starfsendurhæfingu, aukin áhersla á meðferðarúrræði á borð við SÁÁ. Allt eru það úrræði sem kosta vissulega eitthvað en ekkert í líkingu við það sem kostnaðurinn í heilbrigðiskerfinu verður ef við gerum ekkert. Sparnaður í þessum forvarnaúrræðum er enginn sparnaður, bara meiri kostnaður síðar á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Það vitum við og þekkjum mætavel. Við höfum eitt ljóslifandi dæmi fyrir framan okkur sem er sú ákvörðun að taka sjúkraþjálfun undir sjúkratryggingar og endurgreiða. Hvaða fréttir fáum við núna í haust? Að þetta skýri að öllum líkindum það að nýgengi örorku vegna stoðkerfisvanda er að minnka. Það er miklu meiri sparnaður sem af því hlýst og miklu meiri lífsgæði fyrir viðkomandi einstaklinga en nokkurn tímann sá kostnaður sem hlaust af því að setja sjúkraþjálfunina undir Sjúkratryggingar.

Hvaða fréttir heyrum við á sama tíma? Jú, Sjúkratryggingar eru að velta því fyrir sér hvernig þær geti skorið niður kostnað við sjúkraþjálfun. Það eru öll framsýnin í heilbrigðiskerfinu. Þetta er í hnotskurn — ja, maður veit ekki hvað maður á að kalla svona baunatalningu í ríkisrekstri því að það er engin heildarsýn á útgjöld eins og í starfsendurhæfingu, meðferðarúrræðum eða öðrum forvirkum úrræðum í heilbrigðiskerfinu sem gætu sparað okkur stórkostleg útgjöld á öðrum stigum þess. Mér sýnist því miður að þegar horft er á heilbrigðiskerfið sé hæstv. heilbrigðisráðherra fyrst og fremst upptekin af því að skera niður einkarekna hluta heilbrigðiskerfisins án þess að hafa nokkra yfirsýn yfir það hvort það muni spara eitthvert fé í heilbrigðiskerfinu.

Við erum með sérfræðilækna okkar samningslausa frá næstu áramótum án þess að neinar ráðstafanir séu gerðar, að því er virðist, til þess að ná nýjum samningum. Það veit enginn hvaða kostnað það felur mögulega í sér eða hvað það þýðir fyrir sjúklinga sem nýta sér þessa þjónustu og eru núna í raun sex vikur í niðurtalningunni þar til samningurinn rennur út. Það er engin yfirsýn. Þetta eru engin vinnubrögð. Þetta er engin stjórnun á ríkisrekstrinum. Þetta er bara upplausn.

Ég velti því oft fyrir mér þegar við horfum á t.d. úrræði eins og geðheilbrigðismálin þar sem við erum alltaf að skammta úr hnefa að þar fást aldrei alvörufjárveitingar til geðheilbrigðismála. Við höfum ekki enn þá fengist til þess að taka t.d. sálfræðiþjónustuna undir endurgreiðslu sjúkratrygginga og kostnað þar. Það er eins og við lítum geðheilbrigðismál allt öðrum augum en líkamlega kvilla. Við viðurkennum geðsjúkdóma ekki í raun sem alvörusjúkdóma enn þá. Það eru allt aðrar tölur og allt aðrar stærðargráður sem við setjum í þennan málaflokk en aðra þætti heilbrigðiskerfisins. Þetta er ekki alvöruheilbrigðismál að því er virðist, í það minnsta hvernig litið er á það hér í þessum sal þegar kemur að fjárveitingum til geðheilbrigðismála.

Því viðhorfi verðum við að breyta. Við verðum að lyfta grettistaki í geðheilbrigðismálum. Eitt örlítið dæmi um það finnst mér lýsa þessu viðhorfi svo vel. Við höfum heyrt það frá þessari ríkisstjórn að þar eigi að lyfta grettistaki í átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Og hvað sjáum við? Þá fara 20 millj. kr. í Bjarkarhlíð. Gott og vel, ég fagna þeirri fjárveitingu, en á sama tíma á að ráðast í átak gegn peningaþvætti og hvað gerist? Þar er spýtt inn 100 milljónum án nokkurrar umræðu í raun og veru í a.m.k. þrjár ríkisstjórnarumferðir til þess að bregðast við því. Það er greinilega meira svona alvöru. En kynbundna ofbeldið? Ég veit ekki hvernig maður á að horfa á þetta.

Við þurfum að breyta þessu viðhorfi og þegar kemur að velferðarkerfinu okkar verðum við að ná utan um að það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur að eyða fjármunum í forvarnir, eyða fjármunum í forvirkar aðgerðir sem munu spara okkur stórfé á síðari stigum. Það er fjárfesting í velferðarkerfinu okkar. Það er ekki eyðsla, það er fjárfesting sem sparar okkur og gerir okkur kleift að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru, samhliða öldrun þjóðarinnar. Við vitum að öldrun þjóðarinnar fylgir verulegur kostnaðarauki í ekki svo langri framtíð.

Ef íslensk þjóð væri jafn gömul og nágrannar okkar á Norðurlöndunum mætti ætla að útgjöld okkar til heilbrigðismála einna og sér væru a.m.k. 50 milljörðum hærri á ári en þau eru í dag. Það er hins vegar bara rétt handan við hornið fyrir okkur. Við verðum búin að ná þeim meðalaldri á næsta áratug eða svo, hygg ég. Það er sú kostnaðaraukning sem er í pípunum í heilbrigðiskerfi okkar. Í framsýnum ríkisrekstri þar sem reynt er að horfa fram til ára og áratuga er þetta, mætti segja, eftir korter. Það er ekki seinna vænna að fara að bregðast við með ráðstöfunum í dag til að tryggja að við verðum með eins hagkvæmt og gott heilbrigðiskerfi og við frekast getum þegar öldruðum mun hafa fjölgað svo mikið sem horfur eru á á næstu árum.

Það sem ég sakna mest í þessu fjárlagafrumvarpi öllu eru árangursmælikvarðarnir. Út frá hverju miðum við? Hvernig ráðstöfum við fé? Hvaða árangurskröfu gerum við til aukinna fjárveitinga? Það eru nær engar upplýsingar um það í fjárlagafrumvarpinu. Það eru engin grunnviðmið um hvort við rekum heilbrigðiskerfi okkar með hagkvæmum hætti eða ekki eða félagskerfið eða menntakerfið okkar ef því er að skipta. Þarna þurfum við að gera svo miklu betur.

Aðeins um menntakerfið. Þar er heitið stórsókn. Ég ætla ekki að staldra lengi við að ég er ekki hrifinn af útgjaldamarkmiðum sem árangursmælikvörðum. Það segir mér ekki neitt þegar menntamálaráðherra segir: Við ætlum að ná einhverju OECD-meðaltali eða Norðurlandameðaltali þegar kemur að háskólanum. Ég spyr: Hvar eru mælikvarðarnir um gæði háskólanáms okkar? Við eyðum t.d. mun meiru í grunnskólann okkar en nágrannaþjóðir okkar að jafnaði. Þar erum við talsvert yfir OECD-meðaltalinu. Og þegar við tökum heildarkostnað við menntakerfið erum við nokkurn veginn á pari við OECD.

Árangur okkar á grunnskólastigi þegar kemur að námsárangri er talsvert undir pari. Af hverju náum við ekki að nýta þetta fjármagn betur? Hvað veldur? Hvar eru ráðstafanirnar til að bæta þennan árangur, til að tryggja t.d. læsi, færni í raungreinum, draga úr brottfalli í framhaldsskólum? Svo mætti áfram telja. Ég finn þessum mælikvörðum ekki neinn stað í fjárlagafrumvarpinu. Það sem mér þykir eiginlega grátlegast að horfa upp á enn eina ferðina varðar útgjaldaaukningu til framhaldsskólastigsins þar sem í ljós kemur að minni aukning er til starfs iðnskólanna en bóknámsskólanna þrátt fyrir alla umræðu um mikilvægi þess að efla starfs- og iðnnám. Samt voru hér fréttir fyrir nokkrum mánuðum af því að Tækniskólinn hefði þurft að vísa fjölda nemenda frá af því að hann hefði ekki fjármagn til að taka við þeim. Hvað gerum við? Við bætum 3% við. Frábært. Það er stórkostlegur árangur. Það er ekki stefna, það er algjört stefnuleysi. Það er ekki verið að stýra þessu kerfi. Þarna fara ekki saman fyrirheit og framkvæmd.

Horfum síðan á önnur mál eins og samgöngumál. Ég tek fram að við í Viðreisn höfum gagnrýnt allt of mikla útgjaldaaukningu. Ríkisstjórnin slær sér á brjóst og segir: Við erum að lyfta grettistaki í samgöngumálum með því að auka framlögin til þeirra um um það bil 4 milljarða. Þau komu hér fyrir kannski tveimur vikum og hældu sér af því að hér væri í fyrsta skipti lögð fram fullfjármögnuð samgönguáætlun. Svo er hún skorin niður um 500 millj. kr. í fjárlagaumræðunni án þess að nein merki séu um að umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar hafi endurspeglað þann niðurskurð. Þar heyrast mér mjög raddirnar raunar vera allt aðrar. Þar eru ítrekaðar ábendingar um að til sé önnur leið, að það sé miklu meiri þörf.

Ég held að það sé að mörgu leyti rétt því að þegar við horfum á mat Vegagerðarinnar á því að hér sé uppsöfnuð viðhaldsþörf í vegakerfinu upp á 60 milljarða og við bætum 1 milljarði við bregðumst við augljóslega ekki við þeim vanda. Þegar við horfum á vegakerfið okkar út frá þeirri miklu fjölgun sem orðið hefur á ferðamönnum, og þungu umferð um vegakerfið m.a. vegna þess, lætur nærri að auka þyrfti árleg útgjöld til vegaframkvæmda um 10–15 milljarða til að standa undir þeirri þróun sem orðið hefur. Við höfum alls ekki fylgt eftir þeirri þróun sem af ferðaþjónustunni hefur hlotist í umferð um landið, sérstaklega um Suðurland, suðvesturhorn og norður úr. Vegakerfið okkar er að grotna niður í höndunum á okkur. Það er hin einfalda staðreynd málsins. Á þeim vanda er ekki tekið í þessu fjárlagafrumvarpi.

Mig langar aðeins að ræða vinnubrögðin við þessa fjárlagagerð almennt sem valda mér talsverðum vonbrigðum. Ég hef aðeins nefnt það hér en mig langar að fara nánar yfir það. Í kjölfar hruns var talað ítrekað um mikilvægi þess að ríkisfjármálin styddu við hagstjórnina á hverjum tíma. Við lögðum í gríðarlega mikla vinnu við að endurskoða lög um opinber fjármál og marka þeim algerlega nýjan ramma, það sem við köllum LOF í daglegu máli í þinginu. Ausið hefur verið talsvert miklu lofi á þetta LOF. Hvernig er framkvæmdin í raun? Fyrir það fyrsta sjáum við augljóslega, og Seðlabankinn hefur ítrekað gagnrýnt, að ríkisfjármálin hjálpa ekkert til við hagstjórnina, ekki nú frekar en áður. Það er alveg jafn mikil innstæðulaus aukning í ríkisútgjöldum núna og var í aðdraganda hrunsins, á árunum 2005–2007. Það er engin breyting í magni. Raunar er ríkisstjórnin að reyna að setja einhvers konar met í útgjaldaaukningu þegar horft er á ríkisútgjöld á mann, aukningu sem við höfum aldrei séð áður en ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því að ég veit að fjármunirnir munu ekki verða til þegar til kemur. En það er annað.

Ábyrgðarleysið er hins vegar algjört. Hver eru vinnubrögðin? Hér var því heitið að fjáraukalög myndu heyra sögunni til. Af því að við værum með varasjóð þyrfti engin fjáraukalög. Við erum í raun og veru á þriðja ári í framkvæmd á þessu LOF. Ég hef ekki enn þá heyrt á það minnst að þessi varasjóður hafi verið nýttur. En við fengum fjáraukalög á síðasta ári og er strax búið að boða fjáraukalög aftur í vetur, fyrir áramót, án þess að við sjáum mikið hvað eigi að vera í þeim fjáraukalögum.

Ég sé ekki betur en að LOF svokallaða, sem miklu lofi hefur verið ausið á, sé ekkert annað en bara afskaplega falleg en innihaldslaus umgjörð og vinnubrögðin harla lítið breytt í fjárlaganefnd og í þinginu. Mér þótti eiginlega taka steininn úr þegar ég sat fundi fjárlaganefndar sem búin er að funda stíft í allt haust við að fara yfir fjárlögin, kalla inn gesti, finna mögulega veikleika á þessu frumvarpi o.s.frv. En hvað gerðist þegar kom að því að leggja fram einhverjar breytingartillögur eða vinna nefndarálit? Þá kallaði ríkisstjórnin málið til sín aftur, vann breytingartillögurnar ofan í fjárlaganefndina og sagði: Gjörið þið svo vel. Þetta skuluð þið gera.

Það er svona eins og að ráðherra leggi fram frumvarp í einhverjum málaflokki, feli nefnd að vinna úr því og svo þegar umsagnirnar eru komnar kallar ráðuneytið frumvarpið inn aftur og segir: Við ætlum að laga þetta og láta þetta aftur inn í umræðuna. Þið hafið ekki neitt um það að segja. Það sem var nú eiginlega það kómískasta í þessu út frá fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, sem krefst þess að afgangur af ríkissjóði á næsta ári verði að lágmarki 1% af landsframleiðslu, er að ríkisstjórnin eyddi hverri einustu krónu sem til umráða var og skildi fjárlaganefnd eftir með ekki neitt til eigin aðgerða.

Búið var að tæma pottinn í raun og veru þegar fjárlaganefnd fékk breytingartillögur ríkisstjórnarinnar inn á borð til sín. Sem þýddi hvað? Fjárlaganefnd gerði sjálfstæða tillögu um liðlega 700 millj. kr. til viðbótar sem brýtur þessa sömu fjármálastefnu þannig að afgangurinn er ekki 1% heldur 0,97%. Það kann að virka ekki stór tala í sjálfu sér en þegar stendur í fjármálastefnu ekki minna en eða að lágmarki 1% og það prinsipp er rofið, þurfum við þá ekki í raun að setja inn í LOF hvaða vikmörk eigi að vera á þessu svokallaða lágmarki? Þetta er augljóslega upptaktur að því að þessi prinsipp verði bara rofin aftur og aftur.

Grundvallaratriði sem eiga að vera í stjórn ríkisfjármála má einfaldlega ekki rjúfa. Ríkisstjórnin er að sneiða fram hjá hinu augljósa í þessu sem ítrekað hefur verið bent á: Rekstur ríkissjóðs í eðlilegu jafnvægi ræður ekki við þau útgjaldaloforð sem gefin hafa verið. Ríkisstjórn sem er að reyna þá málamiðlun sem hér er, málamiðlun mjög mikilla og stórra útgjaldahugmynda og eins lágra skatta og kostur er — sú málamiðlun gengur ekki upp — verður á endanum að svara spurningunni hvort við ætlum að standa við lægri skatta eða hærri útgjöld. Það verður annaðhvort að skera frekar niður í ríkisútgjöldunum eða einfaldlega að hækka skatta. Því þarf þessi ríkisstjórn að svara. Það er algerlega ótækt að fyrsta skrefið sé þá bara að segja: Þetta eru meira svona leiðbeiningar, þetta afkomumarkmið okkar. Það þarf ekkert að fara svo stíft eftir því. — Hvað verður það þá næst? Er ekki alveg nóg að það sé svona plús/mínus 0,1%, plús/mínus 0,2% og svo hendum við því bara? Þetta er nákvæmlega það agaleysi sem verið var að reyna að taka á með LOF en hér er það strax brotið.

Það er annað mál hér sem ég sakna mjög í umræðunni um bæði fjárlögin og ekki síður tekjuráðstafanir. Það er yfirlýst markmið þessarar ríkisstjórnar að fara í verulega uppstokkun á skattkerfinu, sennilega mestu uppstokkun á skattkerfinu sem ráðist hefur verið í undanfarna þrjá áratugi. Þar liggja til grundvallar hugmyndir sem ég veit að fjölmargir flokkar hér inni hafa haft uppi um stiglækkandi persónuafslátt, um fjölþrepaskattkerfi á þeim grunni, mögulega að afnema hluti eins og samsköttun hjóna og svo mætti áfram telja. Allt eru þetta að mínu viti breytingar sem eru mjög til góða, sérstaklega fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins.

Þær hugmyndir sem Viðreisn lagði upp með voru mjög af þessum toga. Þær hugmyndir byggja á hugmyndum sem komu upprunalega frá samráðsvettvangi um aukna hagsæld hér á landi sem eru ákaflega áhugaverðar og skynsamlegar tillögur. Ég saknaði þess í allri umræðunni um aukna áherslu á þverpólitískt samstarf, aukna virðingu fyrir Alþingi, að ríkisstjórninni hafi aldrei dottið í hug að koma með þessar skattahugleiðingar sínar til þingsins, að kalla minni hlutann til skrafs og ráðagerða í þessum að ætla mætti umfangsmestu breytingum á skattkerfi um áratugaskeið. Það er grundvallaratriði varðandi skattkerfi, sérstaklega tekjuskattskerfi, sem skilar jafn miklum tekjum inn til ríkissjóðs og raun ber vitni, að við eigum ekki að vera að fikta í meiri hluta og minni hluta heldur vera í þverpólitísku samstarfi. Slík kerfi þurfa að standa til ára og jafnvel áratuga. Þá þurfum við að vera sæmilega samstiga og sammála um hvert verið er að stefna. En því miður hefur ríkisstjórnin ekki haft nokkurn áhuga á því að hleypa minni hlutanum að þessari vinnu.

Þetta veldur vonbrigðum og mér finnst það benda til þess að ekkert rosalega mikil innstæða sé í yfirlýsingum um að hér eigi að bæta vinnubrögðin, efla virðingu þingsins og svo mætti áfram telja. Raunar fundust mér vinnubrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart fjárlaganefnd með því að taka fram fyrir hendurnar á henni og leggja henni breytingartillögur upp í hendurnar, eins og gert var, heldur ekki merki um að verið væri að efla virðingu þingsins eða sjálfstæði þess gagnvart ríkisstjórn og Stjórnarráði.

Mér finnst satt best að segja oftar og oftar þegar ég sit hér á þingi og horfi á stjórnskipan okkar að við séum í raun og veru ekki með þingbundnar ríkisstjórnir heldur ríkisstjórnarbundið þing. Þingið situr bara og stendur eins og ríkisstjórnin segir þinginu að sitja og standa á hverjum tíma. Það þykir mér ákaflega sorglegt og ekki sérstaklega til þess fallið að upphefja virðingu þingsins eða styrk.

Til að sauma þetta saman í stuttu máli: Hér á einfaldlega að vera hægt að gera betur. Það er vel hægt að ná fram þeim meginmarkmiðum að styrkja velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið eins og lagt var upp með í fjárlagafrumvarpinu fyrir 1. umr. og grípa til annarra hagræðingaraðgerða eða lágmarkstekjuaukningaraðgerða til þess að forðast að þurfa t.d. að skera niður framlög til öryrkja, þurfa að skera niður framlög til uppbyggingar á hjúkrunarheimilum, og svo mætti áfram telja, og til að tryggja lífeyrisþegum sambærilega kaupmáttaraukningu og öðrum íbúum þessa lands.

Það þyrfti ekki nema eina aðgerð í raun, þ.e. að við getum bara sammælst um að fresta breytingum á veiðigjöldum sem myndu auka tekjur ríkissjóðs um 3 milljarða eða svo á næsta ári og sjálfsagt tryggja okkur það fjármagn sem dygði til þess að mæta megninu af þessari útgjaldaaukningu. Það er í raun og veru ekkert sem sýnir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar betur en það. 6 milljarða gati er lokað með því að ráðast beint í velferðarkerfið án þess að gera minnstu tilraun til almennra hagræðingaraðgerða, án þess að láta sér einu sinni detta í hug að fresta lækkun veiðigjalda um 3 milljarða um eitt ár meðan við tökum betri tíma í að hanna líka nýtt veiðigjaldakerfi. Það er bara ágætt að hafa í huga að þrátt fyrir að hér sé verið að þrengja að víða í hagkerfinu er sem betur fer staða sjávarútvegsins ákaflega sterk.

Það er ágætt að hafa það í huga þegar kemur að umræðunni um veiðigjöldin að það kerfi sem við byggðum upp og þróuðum um árabil átti að skila þessum 10 milljörðum á næsta ári vegna afkomu sjávarútvegsins á árunum 2015–2016, afkomu sem sjávarútvegurinn naut svo sannarlega og er kannski enginn heimsendir þó að hann greiði veiðigjöld af. Ég segi því enn og aftur: Þær breytingartillögur sem hér hafa verið lagðar fram og vinnubrögðin í kringum það valda mér mjög miklum vonbrigðum. Ég held að hægt sé að segja í einföldu máli, herra forseti: Við getum og eigum að gera betur.