149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að tala aðeins um vinnubrögðin og verklagið og lögin um opinber fjármál. Vil ég þá nefna í fyrsta lagi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun sem var samþykkt í vor og máta tillögurnar eins og þær liggja núna fyrir þinginu eftir meðhöndlun fjárlaganefndar við áætlunina og benda á tvo hluti. Það sagði í fjármálaáætlun að í fjárlögum næsta árs, 2019, væri gert ráð fyrir að frumgjöldin stæðu í 748,8 milljörðum. Hver er niðurstaðan? 747. Að heildargjöldin ættu að vera 862,1 milljarður. Hver er niðurstaðan? Ekki 862, nei 863, sama afkoman. Rammarnir sem við lögðum upp með í áætluninni halda alveg ótrúlega vel. Ég verð því algerlega að hafna þeirri skýringu hv. þingmanns að þetta verklag, þau vinnubrögð að koma hér að vori og leggja upp rammann, stilla upp næsta ári í grófum dráttum, sé einhvern veginn að bregðast.

Ég verð líka að segja að mér fannst hv. þingmaður rekja hvert málið á eftir öðru þar sem vantaði ný útgjöld. Það vantar meira til öryrkja, það vantar meira í hjúkrunarheimilin, það vantar meira til Landspítalans, það hefði átt að setja meira í samgöngur o.s.frv. Og hvað er þetta? Allt að hlaupa á tveir, einn plús einn plús tveir, ég gat ekki talið það saman. Það væri ágætt ef hv. þingmaður segði það bara. Hver er talan á útgjaldaaukningunni sem hann er að biðja um og hvernig á að fjármagna hana?

Það kom fram að hækka ætti veiðigjöldin eða einhvern veginn að auka þau, enda hefur Viðreisn boðað að á venjulegu ári væri hæfilegt að taka 20 milljarða í veiðigjöld. Það kemur kannski ekki á óvart. En eru það aðeins veiðigjöld sem eiga að hækka um 13 milljarða? Hvað eiga (Forseti hringir.) útgjöldin að hækka mikið að mati hv. þingmanns?