149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Vindum okkur beint í þetta með vinnubrögðin. Það er alveg rétt að tölurnar standast ágætlega, enda var augljóst þegar maður horfði á niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar að passað var upp á þær tölur og það er svo sem vel. Útgjaldaaukningin er hins vegar alveg jafn mikil milli ára og þegar við horfum á það tímabil sem við erum búin að vera að vinna eftir þessu LOF er ekki að sjá að sá lagarammi hafi virkað sem nein bremsa á útgjaldaaukningu ríkissjóðs á þensluskeiði, sem er kjarninn í gagnrýninni sem var hér fyrir hrun, að ríkisfjármálin hjálpuðu ekki til við að tempra hagsveiflur heldur þvert á móti mögnuðu þær, þ.e. við værum að auka útgjöldin mest þegar hagsveiflan væri sem sterkust og þyrftum svo að draga útgjöldin aftur saman þegar kreppti að. Það er nákvæmlega það sem við sjáum núna, sömu einkennin. Um leið og, eins og ég sagði, hagkerfið hnerrar örlítið þarf að skera útgjöldin niður.

Hvað gerum við ef við skerum þau niður í velferðarmálum og framkvæmdum? Það er nákvæmlega það sama og við höfum alltaf gert og einmitt það sem var talað um að þyrfti að lagfæra í stóru myndinni. Það er alveg rétt að hrósa má ríkisstjórninni fyrir að halda sig innan fjárhagsramma upprunalegrar fjármálaáætlunar, en það má líka minna á, hæstv. fjármálaráðherra, að í millitíðinni hefur nafnvirði vergrar landsframleiðslu á næsta ári hækkað sem gerir kröfu um að afgangurinn í ríkisfjármálum sé aðeins meiri. Það er rofið þannig að þetta viðmið um að lágmarki 1% er rofið.

Hæstv. fjármálaráðherra spyr mig hvað þurfi til og vísar til hugmynda Viðreisnar varðandi veiðigjöld. Það er alveg rétt að við höfum verið svo ósvífin að leggja til að við tökum upp markaðskerfi og leyfum útgerðinni einfaldlega að bjóða í þessar veiðiheimildir og verðleggja þannig þetta auðlindagjald sjálf og við höfum sagt: Það gæti skilað 15–20 milljörðum á ári í góðu árferði. Ég get ekki svarað því hvort það myndi skila meira eða minna. En ég get sagt (Forseti hringir.) að þeir 3 milljarðar sem lækka á veiðigjöldin um (Forseti hringir.) á næsta ári samkvæmt breytingartillögu þessarar ríkisstjórnar myndu duga (Forseti hringir.) ágætlega í þær útgjaldahugmyndir sem við höfum til að loka sárasta gatinu á næsta ári.