149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandamálið við þennan málflutning finnst mér að í aðra röndina er sagt: Það er að hægja á í hagkerfinu, það er að kólna, við þurfum að gæta að okkur, við getum ekki látið útgjöldin vaxa þetta hratt. En svo er næst farið í listann yfir nýju útgjaldamálin. Mér finnst vera mikil þversögn í þeim málflutningi og ég tek eftir því að hv. þingmaður getur ekki sett tölu á útgjöldin sem vantar. Það er mjög auðvelt að telja sig upp í mjög marga milljarða. Ég get nefnilega tekið undir það með hv. þingmanni að við erum algjörlega í efri mörkum þess sem hægt er að réttlæta í vexti rammasettra útgjalda. Við erum í efri mörkum þess. Þá ber hins vegar að líta á það að við erum með afkomutölur og við byggjum áætlanir um afkomu næsta árs á opinberum hagspám. Ég tel að okkur sé í sjálfu sér ekki fært að nota neitt annað. Ég tek eftir því að margir úr stjórnarandstöðu hafa komið upp í dag og sagt að þær spár muni ekki ganga eftir og að við ættum að gera ráð fyrir meiri afgangi. Það er alveg sjónarmið. Kannski mætti vera enn meiri varfærni en sú að byggja á 1% afgangi á næsta ári.

Ég ætla þó að fullyrða miðað við umræðuna sem hefur verið í þinginu í dag að án fjármálareglunnar, án afkomumarkmiðs sem er tölusett, sem er komið inn í lögin, er nokkuð ljóst hvernig þingið hefði farið með þetta fjárlagafrumvarp, a.m.k. stjórnarandstaðan. Allar hugmyndir um að vera með einhverja lágmarksafkomu hefðu fokið út í veður og vind vegna þess að markmiðið var ekki tölusett. Þá hefði lítið dugað að vísa til þess að fjármálastefnan þyrfti að byggja á jafnvægi og sjálfbærni og skilvirkni og festu og öllum þeim góðu markmiðum vegna þess (Forseti hringir.) að þá hefðu menn bara túlkað það eins og hentaði þeim hverju sinni. 1% markmiðið er þarna. Það stjórnar umræðunni núna og það heldur. Við teljum að það sé ábyrgt og það byggir á þeim hagspám sem við höfum í höndunum.