149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Aginn er til bóta, um það erum við sammála. Við sjáum það m.a. í þeim ráðstöfunum sem fara í gegnum öll ráðuneytin, eins og ef við skoðum breytingartillögurnar. Það er vel, vegna þess að það er stefnumótandi ábyrgð í hverju ráðuneyti. Ég veit að hv. þingmaður talaði um að út frá stjórnskipuninni væri það veikleikamerki fyrir þingið. Ég vil hins vegar meina að þetta sé mjög jákvætt vegna þess að stefnumótandi ábyrgð í hverjum málaflokki er samkvæmt lögum um opinber fjármál á ráðherra og þar kemur að því að við séum með, ef ég get orðað það svo, hamarinn á þannig að farið sé í gegnum hvern einasta málaflokk áður en við ákveðum að ráðstafa fjármunum inn á árið, að raunveruleg þörf sé fyrir þá peninga innan tímabilsins.

Hv. þingmaður hefur greinilega mjög góðan skilning á því sem heitir sjálfvirk sveiflujöfnun í hagkerfinu sjálfu og talaði um skatta og bætur í ræðu sinni. Ég er sammála hv. þingmanni með það. Við eigum auðvitað að treysta meira á sjálfvirka sveiflujafnara og hugsa þá frekar inn í þegar við hugum að ríkisútgjöldum. Eftir sem áður, af því að hv. þingmaður talaði um hikst, er nettóniðurstaðan í raun og veru hin sama. Við höldum okkur við innviðafjárfestingar í samgöngum. Við setjum í menntakerfið, fjárfestum í menntun. Við fjárfestum í velferð. Það ætti að koma sér vel, út frá þessari hagspá, þegar hagvöxtur fer aðeins á dvína.