149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Það sem ég held að skipti miklu máli í þessu er, eins og ég kom inn á áður, að við tryggjum sveiflujöfnun. Það er í raun og veru grunnhugsunin í megingildum fjármálastefnunnar, festa og sjálfbærni, að það sé ákveðinn stöðugleiki, að það sé ákveðin festa í grunnstoðum okkar, grunnkerfunum okkar, eins og velferðarkerfinu og heilbrigðiskerfinu, að við getum gengið að því vísu, hvort sem árar vel eða illa það árið, að þjónustan á spítölunum okkar sé hin sama, að kaupmáttur ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega sé sambærilegur, að við þurfum ekki að skerða fæðingarorlof í niðursveiflu og endalaust má tína til. Þetta er festan sem við þurfum að vera með.

Sjálfbærnin snýr að því að við lofum ekki útgjöldum í ríkisútgjöldunum frá ári til árs sem ekki er hægt að standa við í óbreyttu skattstigi. Það myndi ég telja að væri grundvallarviðmið sjálfbærninnar, að þegar allir tekjustofnar ríkisins standa í botni eins og nú er sé útgjaldastigið ekki stillt þannig að það sé algerlega óhjákvæmilegt í þeirri sömu grunnþjónustu að hækka skatta eða skerða þjónustu aftur til að geta staðið undir henni í aðeins meira jafnvægisástand í hagkerfinu.

Það er það sem við höfum lent í aftur og aftur og aftur, að þurfa að grípa til niðurskurðar þegar dregur saman. Það er hvað besta dæmið í fjárfestingunni að sennilega eru fram undan á næstu árum þau ár þar sem við ættum að vera að taka myndarlega á í fjárfestingu, ef spár um kólnun hagkerfisins ganga eftir. En þá kemur aftur upp kunnugleg spurning: Höfum við efni á því þá þegar við höfðum ekki efni á því í síðustu niðursveiflu og höfum við eiginlega heldur ekki efni á því í þessari uppsveiflu? Við höfum því svelt þessar fjárfestingar, bæði í gegnum niðursveifluna sem hófst 2008 og uppsveifluna sem var hafin af sæmilegum krafti 2013 og 2014.

Þá spyr ég hinnar eðlilegu spurningar: Munum við hafa efni á því þegar hægir á í hagkerfinu aftur? Að óbreyttu er svarið nei.