149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum þetta mikilvæga mál, fjárlög ríkisins, og ýmislegt er búið að koma fram í umræðunni í dag hjá framsögumönnum nefndarálita. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum sem ég sit með í fjárlaganefnd fyrir samstarfið. Það er búið að vera gott, við höfum fengið til okkar marga gesti og margar umsagnir og reynt að vinna úr því eftir bestu getu. Auðvitað er maður margs fróðari.

Það er gjarnan svo að á milli umræðna þarf að taka til endurskoðunar ýmislegt, hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar. Að þessu sinni reyndist hagspáin örlítið verri en sú sem frumvarpið byggði á frá því í janúar og þurfti að færa upp nokkrar tölur. Það er í fyrsta skipti sem það gerist að hagspáin er verri miðað við þá sem frumvarpið byggði á. Það er í fyrsta skipti núna sem reynir á þessa svokölluðu afkomureglu sem hér hefur verið fjallað aðeins um í dag.

Af því tilefni vil ég halda því til haga að það er margt annað sem hefur komið fram og verið gagnrýni á í lögum um opinber fjármál. Þingmenn hafa margir sagt að þeim finnist að verið sé að færa fjárveitingavaldið frá þinginu á meðan öðrum finnst að allt eigi að fara meira og minna inn í ráðuneytin og fjárlaganefnd eigi að láta lítið til sín taka. Það eru skiptar skoðanir um það. En ég rifja upp að við Vinstri græn greiddum ekki atkvæði með þessum lögum á sínum tíma. Það var m.a. vegna þessara skuldaviðmiða. Við töldum að við þyrftum að hafa ráðrúm til, ef illa gengur, að fara niður fyrir, ef einhver slík staða myndi birtast. Það gæti t.d. átt við núna.

Að öðru leyti er það virðisaukaskatturinn sem er helst að dragast saman í tekjum ríkisins. Það er m.a. vegna fækkunar ferðamanna, þeir stoppa styttra og þeir versla minna. Það er líka vegna aukinna ferða Íslendinga til útlanda þar sem þeir versla meira og skila þá ekki virðisaukaskatti inn í íslenska hagkerfið. Það er gert ráð fyrir að þær tekjur komi til með að lækka um 4 milljarða. Síðan eru tæpir 2 milljarðar, eða 1,7 í hækkun tekjuskatts einstaklinga og 2,7 í sölu á koltvísýringslosunarheimildum í eigu íslenska ríkisins, sem á að selja á uppboðsmarkaði á næsta ári. Þetta er kannski það helsta sem snýr að tekjuhliðinni.

Síðan vil ég bara segja að þótt við séum við þetta gólf þá skilum við afgangi, 29 milljörðum, en það liggur auðvitað fyrir að það má ekkert út af bregða til að afkomumarkmiðin raskist ekki. Þótt við búum við góðar efnahagshorfur almennt þá, eins og hér hefur komið fram margsinnis í dag, hefur hægt á hagvextinum, m.a. vegna þess að ferðaþjónustan er að dragast aðeins saman eða öllu heldur, hún er ekki að aukast jafn mikið og áður, svo rétt sé nú sagt.

Við í fjárlaganefndinni, eða meiri hlutann a.m.k., teljum nauðsynlegt að framvegis verði svigrúm milli fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar þannig að afkoma frumvarpsins ráðist þá af sveiflum og endurskoðun efnahagshorfa án þess að við stefnum afkomumarkmiði stefnunnar í hættu.

Hér er ýmislegt sett fram og framsetningin hefur batnað ár frá ári, sérstaklega frumvarpsins. Nefndin í heild leggur fram nokkrar breytingar eða öllu heldur tillögur til fjármálaráðuneytisins um framsetninguna. Þetta er mjög þungt og flókið að lesa úr, sumt margendurtekið og ýmislegt fleira. Ég á von á því að það verði vel í það tekið því eins og ég segi þá hefur framsetningin batnað ár frá ári. Svo er vert að minnast á að við ætlum undir vorið að halda einhvers konar málþing eða ráðstefnu um lögin á forsendum Alþingis, hvernig til hefur tekist í þessu. Ég held að það sé afar nauðsynlegt að við þingmenn förum yfir það hvernig fjárlagagerðin hefur birst okkur og hvernig við sjáum fyrir okkur að geta breytt þessu.

Eins og ég hef áður sagt töluðum við Vinstri græn fyrir því fyrir kosningar að það þyrfti að auka framlög til samfélagslegra verkefna í kringum 40–50 milljarða. Við erum að tvöfalda það, næstum því, á helmingi þess tíma sem við erum þó búin að vera í stjórn, eða verðum. Í fjárlögum núna, fyrir 2018, og svo þeim sem eru fram undan gerum við ráð fyrir ríflega 90 milljarða aukningu.

Það var töluverð gagnrýni á fjármálaáætlun, einhverjum þótti hún ekki ganga nógu langt og aðrir vildu auðvitað enn meiri útgjöld til marga málaflokka. Það er auðvitað eins í fjárlagafrumvarpinu sem við fjöllum hér um. En við sem stöndum að þessum fjárlögum teljum að þrátt fyrir að við séum að auka útgjöld samræmist það meðalhófi, bæði hvað varðar framkvæmdir hins opinbera og áform um nauðsynlega uppbyggingu í samfélaginu.

Ég ætla aðeins að renna í gegnum fjárlagafrumvarpið eins og það kemur fyrir eftir málasviðum. Það hefur verið talað um samgöngumálin, fjármagn til þeirra eykst um tæplega 14% á milli ára. Það er talsvert. Þar er m.a. þessi uppsafnaða viðhaldsþörf sem tekur engan enda og verður eilífðarverkefni sem við þurfum að fást við. En við erum líka fylgja átakinu Ísland ljóstengt til enda og ýmislegt fleira sem þar er undir.

Mig langaði aðeins að fara yfir landbúnaðarmálin. Þar gerum við í fjárlaganefnd ekki breytingar, en það hafa auðvitað orðið miklar breytingar á því rekstrarumhverfi eins og við þekkjum. Það er lækkun tollverndar, launakostnaður hefur hækkað í úrvinnslu afurða og svo innflutningur sem hefur verið stóraukinn, sem hefur ekki gert neitt annað en að skerða kjör bænda sem voru ekki vel haldnir fyrir. Það má því segja eins og hér kemur fram að minni markaðshlutdeild og lágt afurðaverð, auk verðlækkunar á útfluttum landbúnaðarafurðum, rýri mjög framleiðsluvilja landbúnaðarins.

Við þurfum að bregðast við þessum atriðum öllum saman. Það getur ekki verið að við séum sátt við að bændur þessa lands geti ekki lifað af því sem þeir eru þó að reyna að gera. Við í meiri hlutanum viljum að þegar fjármálaáætlun verður undirbúin verði hugað að sókn til aukinnar matvælaframleiðslu með markvissu samstarfi við stofnanir ríkisins sem starfa á sviði landbúnaðar, matvælarannsókna og þróunar. Síðan þarf að hafa þessi atriði sem ég var að nefna í huga þegar við endurskoðum búvörusamningana á næsta ári, þ.e. stöðu bænda og hvað þeir hafa þurft að takast á við.

Ferðaþjónustan er stærsta útflutningsatvinnugreinin okkar. Við þurfum svolítið að reyna að ná utan um þetta mikilvægi varðandi efnahagslegar forsendur. Við þurfum að búa til sviðsmyndir. Það hefur svo sem ágætlega verið staðið að gagnasöfnum í tengslum við íslensku ferðaþjónustuna. En það vantar að vinna úr því sem hefur þó verið aflað og það vantar líka hagrænar rannsóknir á ýmsum þáttum í tengslum við ferðaþjónustuna.

Ég vil segja hér líka að í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar erum við að forgangsraða í þágu umhverfismála. Við hækkum framlög til umhverfismála að raungildi um 1,5 milljarða, það er 9% á milli ára, og stórauknu fé er varið til að hefja átak í landgræðslu og skógrækt, endurheimt votlendis og birkiskóga og stöðvun jarðvegseyðingar. Við erum líka að reyna að virkja nýsköpun og einstaklingsframtak og það er gert ráð fyrir 60 milljónum í loftslagssjóð. Ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu náttúruverndar með því að auka framlög til landvörslu, treysta innviði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og efla rannsóknir og vöktun í tengslum við náttúruvernd.

Mig langar að fara aðeins betur yfir þetta af því að Ísland, eins og við þekkjum öll, státar af náttúru sem er einstök á heimsvísu. Það er mikil ábyrgð í því fólgin að varðveita hana. Eins og kemur fram í stefnusáttmála ríkisstjórnarinnar kveðum við á um sérstakt átak í friðlýsingum sem er nú þegar farið að skila árangri. Friðlýsingarskilmálar fyrir fimm svæði í verndarflokki gildandi rammaáætlunar hafa verið sendir út til kynningar og ekki langt þangað til þeir næstu bætast í hópinn. Svo er það auðvitað undirbúningur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og það er landvarslan sem við verðum að efla um leið og við byggjum upp innviði á friðlýstu svæðunum. Það var umhverfisþing á dögunum þar sem var metaðsókn og þar var rætt um náttúruvernd og friðlýsingar. Afar ánægjulegt að sjá að almenningur er farinn að taka mjög virkan þátt í þessu. Stóra myndin er sú að það hefur aldrei runnið meira fé til umhverfismála en núna og það gerist á vakt Vinstri grænna. Við eigum að vera ánægð með þetta.

Síðan vil ég líka bæta því við, af því að ég og annar hv. þingmaður, Guðmundur Andri Thorsson, vorum í starfshóp um plastmál sem skilaði af sér eftir tiltölulega skamman tíma, að nú þegar hefur ráðherra sent í samráðsgáttina fyrsta málið sem kemur frá þeim hópi og varðar plastpokanotkun, sem ég held að sé vel. Það sýnir kannski að það er alvara með að fylgja eftir þeim tillögum sem nefndin lagði til, og auðvitað margt fleira.

Þetta var um umhverfismálin. Auðvitað gæti maður talað miklu lengur um þau en þá ætla ég að taka næst fyrir menningu, listir, íþróttir og æskulýðsmál.

Það skiptir miklu máli að við höldum utan um hefðina og söguna og unga fólkið okkar. Fjárheimildir til safnamála eru auknar um 75 milljónir og það er m.a. til að varðveita íslenska tungu þar sem gert er ráð fyrir stuðningi við útgáfu bóka á íslensku þar sem markmiðið er að efla læsi og vernda tunguna. Það eru líka framlög til Kvikmyndasjóðs til viðbótar og svo er aðgerðaáætlun um máltækni fjármögnuð og verða 460 milljónir settar í það verkefni.

Í vinnu við nýja íþróttastefnu er m.a. lögð áhersla á að greiða fyrir þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og greina stöðu þess hóps. Ég tel að það sé afar mikilvægt. Ég nefni líka aðgerðaáætlun í samræmi við tillögur starfshóps í kjölfar #églíka-byltingarinnar. Ráðherra ætlar að leggja fram frumvarp til laga um samskiptafulltrúa íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar og ég held að það sé afar mikilvægt að standa vel að því.

Varðandi framhaldsskólana þá er lítils háttar aukning til þeirra. Fækkun nemenda er fram undan og þar af leiðandi hækkar framlag á hvern nemanda um 180.000 kr. á milli ára. Þó er engin launung á því að framhaldsskólarnir eru ekki of vel haldnir eins og við þekkjum. Það þarf að fylgjast mjög vel með áhrifum af öðrum breytingum, m.a. sem verða vegna styttingarinnar, hvort sem litið er til þeirra sem brautskrást eða þeirra sem falla einhverra hluta vegna úr námi, og svo eru það líka þeir sem eru lengur en fjögur ár. Við þurfum að reyna að greina svolítið stöðuna. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Við erum og að auka útgjöld til háskólastigsins. Þau verða tæpir 47 milljarðar. Það er hluti af því sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum um að við náum meðaltali OECD-ríkjanna. Það er vinnuhópur að störfum í ráðuneytinu með Hagstofunni við að skilgreina hvernig best er að bera saman þróun framlaga til háskólastigsins miðað við það sem gerist erlendis. Það verða að liggja fyrir samanburðarhæfir mælikvarðar þannig að við áttum okkur á hvar við stöndum á þeim mælikvarða.

Meiri hlutinn gerir tillögu um fjárframlag til lýðháskóla, þess mikilvæga skólastarfs sem þar fer fram. Það hefur reynt aðeins á þetta í gegnum LungA á Seyðisfirði, skóla sem er búið að starfrækja í fjögur ár; byrjaði með hátíðinni. En nú er annar lýðháskóli tekinn til starfa á Flateyri. Þeir eru báðir mjög mikilvægir í að styðja við sveitarfélögin, að þau séu byggðavæn. Þeir draga til sín strax mjög margt fólk og setja svolítinn kraft í samfélagið. Það er búið að semja frumvarp sem þessir aðilar hjálpuðu til við og reyna að búa til lagaumgjörð um þetta og ég vonast til þess að menntamálaráðherra leggi það fram hið fyrsta. Við teljum að menntamálaráðuneytið þurfi að gera samninga við skólana og tryggja fjármögnun þeirra.

Rekstur þekkingarmiðstöðva, endurmenntunar og fræðslu er mjög umfangsmikill. Það hefur komið í ljós, alla vega af þeim upplýsingum sem við höfum þó þegar fengið, að það er allt of mikill munur sem við í fjárlaganefnd getum ekki skýrt á milli þessara fræðslu- og menntunarsetra. Það er eitthvað sem við verðum að fá fram. Hverjar eru forsendur fyrir þessum samningum? Hvers vegna eru þeir svona misjafnir? Það geta auðvitað verið margvísleg rök fyrir því, það gera verið staðhættir, veik staða byggða o.s.frv. Ég held þó að það eigi ekki við í öllum tilfellum. Það er mikilvægt að við drögum þetta fram.

Við leggjum til að Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Austurbrú fái framlag til að mæta því að starfssvæðið er gríðarlega stórt. Við þurfum að horfa betur til þess fyrir austan að þar er lítið fjármagn sett til háskólamála sem þarf að fara betur yfir.

Mig langar að fara aðeins yfir heilbrigðismálin sem hafa verið töluvert til umfjöllunar hér. Það hefur mikið verið kallað eftir mörkun heilbrigðisstefnu og sem betur fer og er afar ánægjulegt þá höfum við tekið fyrstu skrefin í því með afar fjölmennu heilbrigðisþingi 2. nóvember. Ég sat það þing og þar var fólk úr öllum áttum, úr geiranum, sem mér fannst vera jákvætt, sem vildi leggja sitt af mörkum til þess að búa til góða stefnu.

Megináherslan er á greiðari aðgang að heilsugæslunni, lækkun greiðsluþátttökunnar, framkvæmdir við Landspítalann, öflugri göngudeildarþjónustu og styrkingu heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni og svo auðvitað geðheilbrigðisþjónustan. Framlögin eru aukin um 7% að nafnvirði á milli ára, tæpa 15 milljarða. Megináhersla núna er lögð á heilsugæsluna, m.a. til þess að styrkja hana til þess að taka á móti og létta á álagi á sjúkrahúsþjónustuna. Ég vona að þegar við verðum farin að sjá geðheilbrigðisteymin að störfum á heilsugæslunum, eins og boðað hefur verið og meiri þverfaglega þjónustu þar, þýði það að minni ásókn verði á slysadeild eða inn á spítalana.

Það er líka verið að gera 840 millj. kr. framlag varanlegt til að taka á biðlistum. Það eru settar 250 milljónir til að efla mönnun, 200 milljónir í göngudeildarþjónustuna og annað eins til að efla starfsemi heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og líka til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu. Svo eru fjármunir settir í það að lækka afslátt húsaleigu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Hér hefur mikið verið rætt um hjúkrunarheimilin í dag og ég ætla aðeins að koma inn í þau. Undirbúningur hefur tekið langan tíma; lóðaval, samningar og ýmislegt fleira, sem verður þá kostnaðarminna þegar að framkvæmdum kemur. En það á í sjálfu sér ekkert að seinka lokum framkvæmda, sem eru t.d. á Húsavík, á Höfn og í Stykkishólmi og líka á höfuðborgarsvæðinu. Hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi verða tekin í notkun snemma á næsta ári og framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg og við Sléttuveg í Reykjavík eru komnar vel á veg. Með þessum framkvæmdum fjölgar hjúkrunarrýmum um tæp 200 innan tveggja ára. Þær eru m.a. til þess, eins og við þekkjum, að bæta aðbúnað og líka að mæta úreldingu að einhverju leyti. Það hefur ekkert hjúkrunarheimili verið á Seltjarnarnesi en það breytist um áramótin þegar verða teknar í notkun hjúkrunaríbúðir fyrir 40 íbúa. Í Hafnarfirði verða líka teknar í notkun á næsta ári hjúkrunaríbúðir fyrir 60 íbúa og svo hefur verið ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á húsnæði gamla Sólvangs, sem bætir þá við 33 rýmum. Framkvæmdir við hjúkrunarheimili við Sléttuveg eru komnar vel á veg, þar geta verið 99 íbúar og vonandi verður það komið í fullan rekstur seinni partinn á næsta ári. Í Árborg er heimili fyrir 60 manns. Það kemur að hluta til til móts við það sem var á Kumbaravogi og á Blesastöðum, en er samt sem áður fjölgun um 25 rými. Það er því alveg ljóst að það eru framkvæmdir í gangi mjög víða. Eins og ég nefndi og dró hér upp eru þær í Reykjanesbæ, Mosfellsbæ, á Akureyri, Húsavík og Hornafirði og það eru í kringum 180 rými sem verða tekin í notkun á næstunni. Ég held að þetta sé allt til bóta og ekki hægt að segja annað en að við séum áfram með innspýtingu í uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Síðan ætla ég að tala um örorkumálin. Eins og við bendum á í nefndarálitinu hafa ekki orðið grundvallarbreytingar á örorkukerfinu eiginlega síðan 1999 og mjög mikilvægt, eins og ég held að við séum öll sammála um, að endurskoða kerfið frá grunni. Það hefur gengið mjög hægt. Þetta er flókið og þetta er þungt og fólk tekst á um ýmsa hluti. En ég vona svo sannarlega að sá starfshópur sem hefur verið að störfum hjá félagsmálaráðherra beri gæfu til þess að gera tillögur til ráðherra sem taka á því brýnasta. Það verður að standa vörð um almannatryggingakerfið okkar sem framfærslukerfi og þá um leið öryggisnet fólksins sem getur ekki framfleytt sér á vinnumarkaði, t.d. sökum skertrar starfsgetu. Þá þarf líka að nálgast verkefni um að draga úr nýgengi einstaklinga á örorku á heildstæðan máta þar sem gerðar hafa verið breytingar sem snúa að uppbyggingu á framfærslukerfi, starfsendurhæfingarþjónustu, með fjölgun hlutastarfa og starfa sem henta fólki með skerta starfsgetu, sem og almennri breytingu á viðhorfi og vinnubrögðum í samfélaginu og meðal atvinnurekenda.

Ég hef sagt það hér áður og get sagt það enn að ég held að það sé því miður töluvert um það úti í samfélaginu að ekki sé nógu mikill vilji til að taka fólk með skerta starfsgetu í vinnu. Við stöndum frammi fyrir því að helsta fjölgunin er vegna geðrænna vandamála. Mér hefur ekki fundist atvinnulífið í heild sinni vera nógu duglegt að bjóða upp á hlutastörf, fólk getur unnið mismikið, sumir kannski bara 20% eða 30% eða 50% og allt of fá störf standa því til boða.

Síðan eru það málefni aldraðra. Ekkert málefnasvið hækkar jafn mikið að raungildi og málefni aldraðra. Frá árinu 2016 hefur hækkunin numið 30,5 milljörðum, sem sagt um 60%. 67 ára og eldri hefur fjölgað um tæp 7% en útgjöldin hækka um 60%. Ég ætla ekki að halda því fram að allir séu vel haldnir en við viljum greina betur stöðu aldraðra og draga fram þá sem búa við lökust kjör. Það eru í kringum 35.500 manns sem eiga virk réttindi til ellilífeyris hjá Tryggingastofnun. Það eru innan við 900 sem hafa nánast engar tekjur nema ellilífeyrinn og við viljum setja þennan hóp í algeran forgang. Þar er starfshópur líka að verki og ég vona að hann beri gæfu til þess að þegar við endurskoðum fjármálaáætlun verði kominn einhver niðurstaða í það, að þetta fari ekki upp allan skalann heldur að þessi hópur njóti forgangs.

Síðan eru það fjölskyldumálin. Þar er aukning um tæpa 4,6 milljarða. Mest munar þar um 1,6 milljarða hækkun barnabóta sem við vitum að eiga að hækka sérstaklega til að styðja við tekjulægri fjölskyldur. Það er bæði hækkun fjárhæða og viðmiðunarmarka vegna skerðinga. Svo er auðvitað hækkun á Fæðingarorlofssjóði upp í 600.000 kr. Það skiptir líka máli. Síðan eru 200 milljónir sem við setjum til snemmtækrar íhlutunar í málefnum barna og aðgerðir í þágu efnalítilla barnafjölskyldna.

Þetta voru stóru línurnar. Ég ætla aðeins að fara yfir nokkrar breytingartillögur meiri hlutans, ég hef ekki tíma til að fara í þær margar. Hér er lögð fram tillaga um milljarð til að hækka framlag í samræmi við áætlun um útborgaðan skattafrádrátt vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna og áætlað að hann muni nema um 3,3 milljörðum á næsta ári vegna ársins í ár. Síðan er hér gert ráð fyrir einu stöðugildi til að styrkja málsmeðferð lögreglunnar á Norðurlandi vestra í kynferðisbrotamálum, 14,6 milljónir. Það eru líka lagðar fram tillögur sem við samþykktum á Alþingi í sumar um 300 milljónir til að hanna og undirbúa smíði hafrannsóknaskips. Svo er hérna mikilvægt mál, finnst mér, umhverfismál, að 180 milljónum verði varið í þróunarverkefni á vegum Skútustaðahrepps sem byggist á aðskilnaði fráveitukerfa í byggingum á svæðinu og að nýta svokallaða svartvatn til uppgræðslu auðna á Hólasandi. Það var mikil umræða í fjárlaganefnd um svartvatn. Þetta er til þess að ná markmiðum um verndun Mývatns ásamt því að endurnýta næringarefni til uppgræðslu á Hólasandi í samvinnu við Landgræðslu ríkisins.

Við gerum líka tillögu um tímabundið framlag til Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Raufarhöfn upp á 10 milljónir. Markmið rannsóknastöðvarinnar er að efla og auka náttúrurannsóknir á Melrakkasléttu, safna og halda utan um miðlun upplýsinga um náttúrufar á svæðinu ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum. Við leggjum líka til í framhaldinu af þessu að umhverfisráðuneytið gerir samning við Rannsóknastöðina Rif fyrir fjárlög árið 2020. Þetta er afar mikilvægt starf og er einmitt til þess að styrkja brothættar byggðir.

Við leggjum ýmislegt í safnamál. Það er gjarnan talað um að ekki séu gerðar miklar breytingar á milli umræðna en þessar litlu fjárhæðar skipta gríðarlega miklu máli í mjög mörgum sveitarfélögum og geta orðið til þess að hægt sé að halda opnum ýmsum söfnum og öðru slíku. Ég vil m.a. nefna að við erum með 10 milljónir vegna 200 ára afmælis Jóns Árnasonar og við gerum líka tillögu um 8 milljónir í tímabundið framlag til Pálshúss í Ólafsfirði og til að laga aðgengi fyrir hreyfihamlaða við Steinshús, minningarsafns um Stein Steinar o.s.frv. Það eru mörg svona mál og allt skiptir þetta miklu máli þó að litlar fjárhæðir séu.

Eins og ég sagði áðan þá fara 400 milljónir í stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Við samþykktum líka, Alþingi allt saman, í sumar að stofna Barnamenningarsjóð Íslands. Í hann fara 100 milljónir og gert ráð fyrir því að það verði svo á næstu fimm árum. Svo erum við með önnur smærri verkefni sem snúa að RIFF, að Skaftafelli, 15 milljónir, það er framlag til Kalaks, vinafélags Íslands og Grænlands, sem á m.a. að vera til þess að kenna börnum að synda, sem maður hlýtur að telja mikið og þarft og gott verkefni.

Í framhaldsskólunum og háskólanum reyndar er gert ráð fyrir fjármunum vegna Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra vegna túlkunar í skólunum, sem ég hef nú stundum talað um hér á þingi. Það hefur mjög oft vantað peninga í það og miklar sveiflur í eftirspurn eftir þessari þjónustu. Nú hafa verið settir fjármunir í það.

Varðandi háskólana kemur fram að 30 millj. kr. millifærsla sé vegna þess að gert var ráð fyrir 20 fleiri hjúkrunarfræðinemum við Háskólann á Akureyri en forsendur voru til og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Það er mikill vilji til að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði í landinu og Háskólinn á Akureyri er tilbúinn til að taka þetta verkefni inn í tveimur lotum en þarf auðvitað þessa fjárhæð til að geta byggt grunninn, eins og við vitum, ráðið fólk og annað slíkt, þó að nemendahópurinn verði í tvennu lagi. Við leggjum einnig til fjármuni til Austurbrúar og LungA og Þekkingarnets Þingeyinga sem fær 10 milljónir.

Ég var búin að fara ágætlega yfir hjúkrunarheimilin, en ég vil minnast á það að 40 milljónir eru settar í að koma á fót sérstöku stuðningsteymi fyrir langveik börn með miklar stuðningsþarfir. Margt af því sem hér er undir getur haft áhrif víða. Síðan leggjum við til 200 milljónir til endurnýjunar á myndgreiningarbúnaði á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og ýmislegt fleira.

Það þarf að leiðrétta hér, virðulegi forseti — og ég hef haft samband við ráðuneyti velferðarmála — það sem stendur á bls. 36 í okkar áliti, að gerð sé tillaga um að millifæra 26 milljónir af lið sjúkraflutninga á nokkrar stofnanir, þar sem nýtt útboð á sjúkraflugi gerir ráð fyrir að kostnaður heilbrigðisstofnana hækki við sjúkraflug milli stofnananna. Þar eru settar 16 milljónir á Heilbrigðisstofnun Norðurlands sem eiga að fara á Sjúkrahúsið á Akureyri. Því rétta er hér komið á framfæri.

Síðan eru settir fjármunir til að styrkja rekstur biðdeildar aldraðra á Vífilsstöðum sem er gerð varanleg. Við höfum verið að stilla þetta af á hverju ári en nú er þetta gert varanlegt.

Við setjum líka fjármuni í Krýsuvík og Hlaðgerðarkot og fjármuni til Miðstöðvar foreldra og barna, 30 milljónir. Art-verkefnið og Bjarkarhlíð fá hér líka framlag, 18 milljónir eru settar til Aflsins á Akureyri og svo eru fjármunir settir til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til að efla rekstur hennar sem er mikil þörf á.

Eins og ég sagði áðan eru settir fjármunir í vinnustaðasamninga öryrkja. Það er talið eitt af árangursríkustu úrræðunum sem eru í boði til að auka virkni fólks með skerta starfsgetu. Það hefur mikil ásókn verið í þetta verkefni, meiri en gert var ráð fyrir, og því er hér lagt til að auka við til þess að ekki þurfi að grípa til takmarkandi aðgerða.

Við gerum líka tillögu um framlag til reksturs Jónsvers á Vopnafirði, ekki há fjárhæð en skiptir máli því þá er hægt að setja úrræðið í gang í samstarfi við VIRK, sveitarfélagið og fleiri aðila. Við gerum, eins og hér hefur komið fram í dag, tillögu um að SÁÁ fái 150 milljónir til að hægt sé að ganga til samninga um göngudeildarþjónustuna m.a. og styrkja aðra þjónustu í samræmi við stefnumótun. Við setjum líka fjármuni í Ljósið og til fleiri aðila sem tilgreindir eru í álitinu.

Virðulegi forseti. Ég held að við eigum að vera ánægð með þetta frumvarp. Þegar maður talar um aukningu á milli ára sem hleypur á afar stórum fjárhæðum má vel vera að einhverjum þyki ekki nóg að gert á meðan öðrum þykir of mikið gert. En ég tel að við séum á réttri leið. Okkur getur greint á um hvar við eigum að byrja eða hvar við eigum á enda. En ég tel að við séum á réttri leið í þessu og mér finnst þetta framsækið frumvarp þar sem verið er að styrkja innviði, styrkja heilbrigðisþjónustu, menntamál og ýmislegt annað sem við töluðum um að við myndum gera.