149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Ég myndi vilja sjá stefnu- og markmiðadrifnari umræðu. Svona upptalning á bitlingum þingsins, þá sérstaklega hægri, vinstri, er ekkert mjög markmiðadrifin. Eru ekki til stefnur um þetta í málefnasviðum ráðherra, t.d. um söfnin? Þar er farið vel yfir að það eru markmið um að bæta aðgengi og miðlun menningar og lista, að vernda menningararf þjóðarinnar o.s.frv. sem markmið málefnasviðsins. Þegar maður pælir í því gæti maður spurt: Til hvers er þingið að skipta sér af þessu? Á að ná meðaltali OECD? Þegar það loforð var gefið hlýtur að hafa verið miðað við þáverandi gögn. Þær upplýsingar sem lágu þá fyrir búa til það markmið. Það hlýtur að flokkast undir skólabókardæmi um „moving the goalposts“, eftiráskýring á íslensku, að það sem var einu sinni meðaltal OECD verður það ekki seinna. Þegar við erum búin að laga það aðeins til er það eitthvað annað sem við lofuðum í raun og veru. Hvernig virkar þetta þegar við eigum að vera í stefnu- og markmiðadrifinni umræðu?