149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðuneytin hafa einmitt kvartað dálítið yfir þessum bitlingum þingsins því að þau hafa enga yfirsýn, eftirfylgni eða neitt svoleiðis með þeim fjármunum sem þingið setur í hin og þessi verkefni, hvaða markmiðum og árangri eigi að ná með þeim fjármunum sem þingið setur í eitt verkefni en ekki annað. Hvaða árangri á að ná með þeim fjármunum sem þingið setur í eitt verkefni og ráðuneyti setur í sama verkefni? Er einhver munur þar á? Er einhver munur á því hvaða kröfur eru gerðar til fjármagnsins frá hvorum aðila?

Ég held að við þurfum að pæla svolítið betur í því hvernig við förum með þetta.

Ég vil koma aðeins inn á hjúkrunarheimilin. Ýmis hjúkrunarheimili voru nefnd en ekkert af þeim, a.m.k. ekki þau nýju, var með 90 rými eða fleiri. Þeir sem koma til fjárlaganefndar segja okkur að það sé í rauninni lágmark þess að hjúkrunarheimili geti staðið undir rekstri, að þau þurfi að vera með 90 eða fleiri rými. Ég veit ekki af hverju við erum ekki með stefnu í þessu líka, að gera ákveðna sjálfbærni í þessum málum.