149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ég vona að hún erfi það ekki við mig en ég hlýt að spyrja út í forgangsröðun hennar flokks í þessum efnum. Vinstri græn hafa farið mikinn í umræðunni um velferðarmál og áherslu sinni á að styrkja þau. Ég ætla að leyfa mér af ákveðinni ófyrirleitni, en þó kannski ekki svo mikilli, að stilla upp þeirri jöfnu að draga til baka 3 milljarða lækkun veiðigjalda á móti því að hætta við að skera framlög til örorkumála niður um 1,1 milljarð, skera framkvæmdir í hjúkrunarrýmum niður um 1 milljarð og tryggja ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum 0,5% kaupmáttaraukningu sem myndi kosta tæpan 1 milljarð til viðbótar. Þá spyr ég: Er ekki svolítið sérkennileg forgangsröðun, hv. þingmaður, að ætla að skera þessa þætti niður til að geta lækkað veiðigjöld um 3 milljarða frá núgildandi kerfi? Væri ekki tiltölulega útgjaldalítið fyrir Vinstri græn (Forseti hringir.) með sína áherslu á velferðarmálin að slaufa einfaldlega þessari breytingu á veiðigjöldunum og hætta við þennan niðurskurð?