149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og kem hingað til að spyrja hana út í tvennt sem hún vék að í máli sínu.

Í fyrsta lagi varðandi framhaldsskólana. Það kom fram í máli þingmannsins að ástæða lækkunar til framhaldsskóla væri fækkun nemenda. Eins og þingmaðurinn veit var því lofað þegar stytting framhaldsskólanna kom til að engin lækkun yrði á framlögum til skólanna. Þá er einnig minnt á það að loforð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var — og hefur verið talað fjálglega um það — að efla iðn- og starfsmenntun í landinu, sem allir vita að er dýrari á hvern nemanda en hið bóklega nám.

Ég átta mig því ekki alveg á því hvernig ríkisstjórnin finnur út að réttlætanlegt sé með þá stefnu að (Forseti hringir.) draga svo úr framlagi til framhaldsskólanna.