149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Því miður gefur hinn naumi tímarammi óskaplega lítinn tíma í pontu til að fara í djúpar samræður í andsvörum. En það er eitt og annað sem ég vil tala um annað en framhaldsskólana.

Það eru auðvitað umhverfismálin. Þar vekur það furðu mína að ríkisstjórnin, sem hefur háleit markmið varðandi losun, skuli skila auðu þegar kemur að almenningssamgöngum. Það er ekki áætluð ein einasta króna t.d. í borgarlínu. Ef við tökum dæmi hefur Reykjavíkurborg núna skilað af sér fimm ára áætlun og þar eru 5 milljarðar teknir til hliðar í það verkefni. Þetta er risastórt verkefni sem kemur okkur öllum við því að það hefur með losun að gera. Almenningssamgöngurnar um allt land: Þar skilar ríkisstjórnin auðu. Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) og það er ekkert að gerast, ekki neitt. Það er engin uppbygging, ekkert viðbótarframlag. Hvað ætla stjórnvöld að gera þar?