149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Heildarframlag til samgöngumála er ríflega 40 milljarðar og eykst um 12% á milli ára. Það er varla niðurskurður. Það hlýtur að vera aukning.

Það er alveg rétt að hér er ekkert nefnt varðandi borgarlínuna. Það er auðvitað eitthvað sem á eftir að ganga frá samkomulagi um. En hv. þingmaður veit eins og ég að búið er að handsala það að þegar liggur fyrir hvernig það verður gert kemur ríkisstjórnin inn í það mál. Það var handsalað hér fyrir ekki svo löngu síðan á milli borgar og ríkisstjórnar.

Varðandi almenningssamgöngurnar almennt, svo að við tökum þær líka, hafa þær verið í svolitlum kröggum í hinum dreifðu byggðum og átt undir högg að sækja og fjármuni vantað. Verið að setja fjármuni í þær núna til að reyna að mæta því, enda mikil nauðsyn og ég tek undir það. Við þurfum að standa okkur vel í þeim málum.