149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði að spyrja hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um krónu á móti krónu skerðingu. Króna á móti krónu skerðingin var sett á, illu heilli, af Vinstri grænum og ég hugsa að það væri mikill akkur fyrir þá að losna við þann hrylling.

En ég skil ekki þessar tölur. Sagt var að 4 milljarðar ættu að fara í þetta fyrst. Svo var það komið niður í 2,9 og nú er talað um að það eigi að vera 4 milljarðar á næsta ári, 2020. En í nýlegu viðtali sagði hv. þingmaður að þetta kostaði 18–20 milljarða.

Miðað við það virðast tölurnar vera mikið á reiki. Það væri ánægjulegt að vita af hverju hvergi er talað um að setja allan þennan pening í þetta. Er þá starfsgetumatið bara fugl í skógi? Eða er verið að plata eina ferðina enn? Á ekki að setja þá peninga í sem þarf til að klára málið ef það verður niðurstaðan í þessari nefnd?