149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég vil bara benda henni á að þessar króna á móti krónu skerðingar koma starfsgetumatinu í sjálfu sér ekkert við. Þetta eru 25 milljarðar, myndi ég segja, á tveimur árum, sem eldri borgarar eru búnir að fá. Þetta er bara spurning um að búa til einn bótaflokk, en vera ekki með þessa sérstöku uppbót. Það er hún sem gerir allan þennan óskunda og við eigum bara að taka hana í burtu.

En það sem ég tel undarlegt í þessu er að ég sé hvergi — því að ég veit að 4 milljarðar duga ekki til — en ef við förum að hugsa þetta á annan hátt eru 4 milljarðar sennilega nóg. Ég held að ágóðinn hjá ríkinu af því að afnema þetta verði það mikill að það verði ekki einu sinni 4 milljarða kostnaður, ég hugsa að það verði bara gróði fyrir ríkið og sérstaklega fyrir öryrkjana. Þá fer þessi kvöð af þeim, að geta ekki unnið og að allt sé skert.

Og ég segi: Það á aldrei að hindra það að fólk geti unnið. Það er það vitlausasta sem við gerum. Þess vegna eigum við að sjá til þess að afnema þetta núna.