149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. um fjárlagafrumvarp hefur þinginu gefist tími til að rýna frumvarpið og meta forsendur þess og þær áherslur sem þar eru lagðar. Ég var reyndar því miður það óheppinn að vera mestallan tímann utan þings þann tíma sem hv. fjárlaganefnd notaði til að taka á móti gestum og fara yfir meginefni frumvarpsins. Má vera að ræða mín og umfjöllun um hið ágæta frumvarp beri þess nokkur merki að ég er kannski ekki eins vel lesinn í því og ég hef oft verið áður.

Umræða um fjárlagafrumvarp er oft því marki brennd, eins og eðlilegt er, að þar eru ólíkar skoðanir og ólíkar stefnur og ólíkir pólitískir flokkar sem endurspeglast í umfjöllun um frumvarpið og þær áherslur sem þar eru lagðar. Það eru ólíkar leiðir að því sama markmiði að gera sem best hverju sinni. Ég vil segja, virðulegi forseti, að öll þau sem í þessum sal sitja vilja vinna af heilindum og gera sitt besta og það eru að sjálfsögðu allir að gera.

Það er síðan önnur umræða hvernig þær áherslur leggjast út og hvað okkur finnst um þær áherslur sem lagðar eru, hvernig við teljum að hugsunin um framtíðarhagsmuni ríkissjóðs sé og hvernig þær birtast í ræðum einstakra þingmanna, svona til lengri tíma. Um pólitískan debatt, pólitískar rökræður í þeim efnum, má að sjálfsögðu hafa langt mál en frumvarpið sem við ræðum núna ber þess eðlilega merki að það er afurð samstarfs þriggja ólíkra flokka, þ.e. flokka sem slá verulega af stefnum sínum sem eru að ná saman um markmið og ná saman um að leggja stefnu.

Ég verð að segja að mér finnst það að mörgu leyti hafa gengið mjög vel og slá þann tón sem við nefnum oft, kosningar sem voru fyrir rúmu ári og hafa verið ótt og títt undanfarin misseri, sem er vont að því leyti að það er fyrst og fremst festan sem skiptir máli í því. Hér er verið að leggja í öllum aðalatriðum þær áherslur sem um var fjallað í kosningabaráttunni.

Raunhækkun rammasettra útgjalda í frumvarpinu er 4,8%. Það er gríðarlegur vöxtur. Mig minnir reyndar að ég hafi líka sagt þetta í umræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir ári síðan og þá bjóst ég ekki við að við myndum aftur sjá slíkan vöxt sem nú er staðreyndin í frumvarpinu. Það er hins vegar ljóst, virðulegur forseti, að slíkur vöxtur sem hér er raungerður getur varla verið ár frá ári og getur varla komið aftur.

Við erum að hækka heildarútgjöld á milli ára um 12%, frumgjöldin um 14%, raunvirðið um 9%. Það þarf mikil verðmæti til að standa undir því. Það þarf gríðarlega verðmætasköpun í samfélaginu til að standa undir slíkum útgjöldum. Það er gríðarlega stór og stækkandi þjóðarkaka sem er verið að sneiða af til að ráðstafa með þeim hætti.

Þannig að ég segi það, virðulegur forseti, að við verðum að staldra við. Við verðum að fara að horfa í þann veruleika að hagspár sem nú eru birtar segja okkur að minni hagvöxtur sé fram undan en verið hefur. Það er ekki verið að segja að það sé samdráttur, ekki verið að segja að það sé enginn hagvöxtur heldur er minni vöxtur, sem ég held að sé að mörgu leyti mun heilbrigðara ástand en við höfum búið við á undanförnum árum en skapar okkur þó líka þau verkefni að við verðum að rýna ríkisreksturinn og áherslur okkar með sterkari og gleggri hætti en við höfum kannski gert hingað til til að ná þeim markmiðum sem við viljum ná hverju sinni.

Grunninn að þeim miklu útgjöldum má nefnilega rekja til þess að það hefur verið ótrúleg velgengni í efnahagslífinu á undanförnum árum. Það hefur verið nefnt í umræðunni í dag að þetta sé eitthvert lengsta hagvaxtarskeið í hagsögu okkar, fordæmalaust hagvaxtarskeið, og eins og ég sagði áðan er ekki útlit að stefni í samdrátt heldur einungis minni vöxt. Þetta eru allt saman fjöreggin sem við höldum á og skiptir þess vegna miklu máli að við ræðum fjárlagafrumvarpið og að fjárlagafrumvarpið endurspegli í öllum aðalatriðum að við viljum vinna að því að ekki verði kollsteypa á nýjan leik.

Lagðar hafa verið fram breytingartillögur sem ég vil segja, eftir að hafa flett í gegnum þær, að eru frá sumum flokkum algerlega glórulausar. Ég nefni þetta vegna þess að á sama tíma og gagnrýnt er að hagvaxtarspár séu allt of bjartsýnar er verið að leggja fram tillögur um skattahækkanir sem byggjast á sömu spám og eigi að ná ótrúlega háum fjárhæðum, líklega einum 3,7% í skattahækkanir sem boðaðar eru í tillögum af hálfu Samfylkingarinnar, ef ég man rétt. Það eru stórar sneiðar. Ég nefni þetta sérstaklega því að við höfum rætt í umræðunni í dag og í 1. umr. um fjárlög hvernig þau munu birtast inn í það viðkvæma ástand sem verður í samfélaginu eftir áramótin við gerð kjarasamninga og hvernig sú áhersla getur birst.

Menn grípa úr loftinu patentlausnir um hvernig megi auka tekjur ríkissjóðs. Ég held að ég ofgeri engum þegar ég nefni að líklega er oftast hlaupið til og nefnd veiðigjöld. Við höfum sett okkur það að taka veiðigjöld og að þau séu afkomutengd. Þess vegna lækka veiðigjöld þegar afkoman dregst saman. Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér mjög vandaða úttekt sem Samtök sveitarfélaga í Norðvesturkjördæmi létu gera um afkomu og rekstur útgerðarfélaga á því landsvæði. Sú úttekt dregur ekki einungis fram hversu íþyngjandi þessi gjaldtaka er og hversu óheppileg tímatöfin á gjaldtökunni er, þ.e. að leggja gjöld á í miklu góðæri í sjávarútvegi en þurfa að greiða þau þegar verulega hefur harðnað á dalnum, skýrslan dregur ekki síður fram þá staðreynd að það er ekki hægt að segja: Veiðigjöld á stórútgerð, þarna er um auðugan garð að gresja í gjaldtökum. Útgerðir eru að sjálfsögðu mismunandi og mismunandi burðugar. Bolfisksútgerðir í Norðvesturkjördæmi eru fyrst og fremst hryggjarstykkið í byggðunum þar og að ganga hart fram gagnvart þeim hefur áhrif á þau samfélög.

Ég vil segja að það eru engar patentlausnir í því hvernig beri að auka tekjur ríkissjóðs og allra síst með því að benda stöðugt á þennan tekjupóst, veiðigjöld.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson orðaði það vel í ræðu í dag að það væri óábyrgt og léttvægt að leggja fram breytingartillögur sem aldrei þarf að standa við og aldrei þarf að bera ábyrgð á. Þetta var vel orðað, virðulegur forseti, og ég tek heils hugar undir það. Það er létt verk að tala í hjörtu þeirra sem vilja heyra önnur tíðindi en veruleikinn er. Fyrir þann málflutning eigum við ekkert að gefa.

Að öðru leyti er umræðan hér sem áður efnisleg og góð.

Grunnurinn að þeim árangri sem við ræðum og ætlum að byggja á áfram hefur einmitt myndast vegna þess að við höfum fylgt ábyrgri tillögugerð, ábyrgum ákvörðunum og ákvarðanir hafa verið farsælar á undanförnum árum og byggt upp þessa velgengni.

Þrátt fyrir slíkan útgjaldavöxt er áfram haldið á þeirri braut að lækka opinberar skuldir. Engin fjárfesting er betri fyrir samfélagið heldur en að lækka skuldir ríkissjóðs. Á aðeins sex árum hefur tekist að lækka heildarskuldir ríkissjóðs úr 86% af landsframleiðslu í um 31% í árslok nú; úr 1.500 milljörðum í um 840 milljarða.

Við lok gildistíma þessa fjárlagafrumvarps verða heildarskuldir ríkissjóðs komnar undir 30% af landsframleiðslu, sem er þá undir þeim markmiðum og fjármálareglum sem við höfum sammælst um. Ekkert býr ríkissjóð betur undir framtíðina en lækkun skulda og að hafa komið stöðu hans í þetta horf.

Til viðbótar þeirri lækkun skulda er nú haldið áfram og gert ráð fyrir að greiða árlega um 7 milljarða kr. inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Sú lækkun skulda hefur lækkað útgjöld vegna vaxtakostnaðar á næsta fjárlagaári um 10 milljarða kr.

Spyrja má hvernig þeim fjármunum verði best varið. Hingað til hefur lækkun vaxtakostnaðar og stækkandi landsframleiðsla verið nýtt til að bæta ýmis útgjöld hins opinbera. Í velferðar- og menntamálum, í stórauknum framlögum til samgöngumála og ekki síst til þess að hækka að raungildi verulega framlög þeirra sem njóta framfærslu almannatrygginga. Enginn þarf að deila verulega um þær hækkanir eða áherslur. Ég held að almenn samstaða sé um þá málaflokka.

Þótt ég deili ekki um það að fyrir þá sem höllustum fæti standa verði að gera betur skil ég að eðlilega hrökkvi menn við þegar tillögur koma fram er menn leyfa sér að túlka með þeim hætti að svíkja eigi loforð og ekki að standa við það sem áður hafði verið sagt. Grunnurinn að því er að við vildum gera kerfisbreytingar á almannatryggingum öryrkja, sem ekki hafa náð fram að ganga enn þá, þeim til kjarabóta. Það er hver dagur dýr sem það dregst, hver dagur er sár sem ekki getur látið það gerast að við náum árangri í því mikilvæga verkefni.

Umræða um þá lækkun sem er gerð af meiri hluta fjárlaganefndar er því vel skiljanleg en gleymum ekki að þetta frumvarp ver 6 milljörðum til hækkunar, að gildandi fjármálaáætlun kveður á um raunhækkun framlaga. Ég tek undir með hv. formanni fjárlaganefndar þegar hann segir að það sé ljót og gamaldags pólitík að láta sem svo að hér sé gengið á bak loforða um úrbætur og jafnvel látið í það skína að verið sé að skerða kjör.

Meiri hluti fjárlaganefndar fjallar um það í áliti sínu að þann hóp sem verst stendur beri að hafa í forgangi. Það er aftur á móti ekki að heyra að það sé beint forgangsmál allra sem um þetta fjalla. Við getum ekki eingöngu alltaf hugsað helst um þá sem best standa í þeim hópi. Sem betur fer hefur hagur eldri borgara vænkast verulega en þeir sem fátækastir eru þar verða að njóta forgangs. Það er megináhersla í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og því er beint til þeirra sem um þau mál fjalla, til hæstv. félagsmálaráðherra, að þannig verði í pottinn búið.

En er endilega rétt og nauðsynlegt að stækkandi hagkerfi og lækkun skulda falli til aukinna ríkisútgjalda? Er ekki kominn tími til að skila aftur til skattgreiðenda ávinningi af bættum efnahag og huga að því að skila þeim sem þá fjármuni eiga, skattgreiðendunum, sínum hlut með lækkun skatta?

Virðulegi forseti. Hlutverk fjárlaganefndar er að gæta að lögum um opinber fjármál. Með ítarlegum hætti fjallaði hv. þm. Björn Leví Gunnarsson um form og ferla. Það verður að segjast að það þrönga einstigi er vandratað. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Ég verð því að segja að þá ráðstöfun sem mesta athygli hefur fengið í umræðunni undanfarna daga, um að hverfa frá hækkun framlaga með þeim hætti sem um var talað og fresta gildistöku þeirra vegna kerfisbreytinga, verður líka að skoða í því ljósi, út frá þeirri ísköldu staðreynd sem lögin um fjárreiður eru: Hlutverk fjárlaganefndar er að gæta að því að lögunum sé fylgt. Það er kalt að þurfa að segja þetta en svona er veruleikinn.

Annar þáttur sem komið hefur upp í umræðunni er markmið okkar um 1% afgang miðað við landsframleiðslu. Ég ætla ekki að hártoga það að hér við 2. umr. náum við ekki því marki. Við erum ekki langt frá því, þar er bitamunur en ekki fjár. Ég tel einsýnt að á milli 2. og 3. umr. verði fjárlaganefnd að ræða hvort og hvernig megi ná því markmiði. Það er ekki svo að endanlegt útlit fjárlaga verði við 2. umr. Við eigum 3. umr. eftir og ég vona að takist í það minnsta að freista þess að ná settu marki í þeim efnum.

Virðulegur forseti. Við erum nú um miðjan nóvember í 2. umr. Undanfarin tvö ár hafa verið afar sérstök við fjárlagavinnu. Það var starfsstjórn starfandi við fjárlagavinnuna 2016 og ríkisstjórn sem rétt hafði setið í nokkrar vikur við síðustu fjárlagagerð, á aðventunni 2017. Tími þingsins til vinnslu frumvarpsins var því afar takmarkaður. Við höfum haft rýmri tíma núna. Ég held að þess sjáist glögglega merki í nefndaráliti og þeim áherslum sem nú eru lagðar við 2. umr.

Það er mikilvægt að stöðugleiki og festa í vinnslu fjárlaga sé sem mestur og því fagnaðarefni að okkur hafi tekist að komast á þennan stað á þessum tíma. Nefnt hefur verið í dag að nauðsyn sé á hverjum tíma að endurmeta umsvif ríkisins og rekstrarkostnað. Við framlagningu fjárlagafrumvarps var kynnt átak í ríkisrekstri. Engum dylst að það er mikið verk en nauðsynlegt en hér getur verið verkefni sem er væntanlega eitt það verðmætasta af verkefnum sem hægt er að ráðast í fyrir skattgreiðendur landsins. En því verður þá að fylgja eftir. Sparnaðurinn verður að skila sér í lækkun fjárheimilda. Átak í ríkisrekstri er ekki til að auka ráðstöfunarfé stofnana. Átak til bætts rekstrar er eitt, annað er hvernig við fjármögnum ýmis verkefni.

Í frumvarpinu er veruleg hækkun fjármuna til samgöngubóta. Engum dylst þörfin fyrir miklar fjárfestingar og endurbætur á flugvöllum, hafnarmannvirkjum og vegum. Það er hrópað á enn meira fjármagn í þeim efnum. Nauðsynlegt er að ljúka umræðum sem fyrst um aðrar fjármögnunarleiðir til vegagerðar. Notendagjöld á vegum hljóta að vera valkostur, nauðsynlegt er líka að endurskoða og stokka upp skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Það er beinlínis óhjákvæmilegt að slíkt fari fram. Með þeirri byltingu sem er að verða við orkuskipti í samgöngum dregst saman sá skattstofn sem notaður hefur verið til fjármögnunar þessa málaflokks og varðandi væntanleg notendagjöld, verði þau niðurstaðan, verður líka efnt í þeirri endurskoðun að koma til móts við þau með einhverjum hætti þannig að við léttum sem mest skattakrumlunni á móti, eins og mögulegt er.

Í fjárlagafrumvarpinu er enn haldið áfram fjármögnun á Íslandi ljóstengdu, einhverju mesta byggðamáli sem unnið hefur verið í á undanförnum árum. Fáir muna lengur að það var Alþingi sem fyrst steig inn í það verkefni. Þetta vildi ég nefna, virðulegur forseti, vegna orða sem hafa m.a. fallið í umræðunni í dag. Það var á þeim tíma meiri hluti fjárlaganefndar sem framkvæmdi það að stíga fyrsta skrefið í því verkefni. Upphaf þess verkefnis má einmitt rekja til fjárlagavinnu þar sem heimsóknir sveitarfélaga til fjárlaganefndar og umræður við sveitarfélög undirbyggðu og lögðu grunn að því merkilega átaki.

Nú fer að hilla undir lok þessa átaks í einstaka landshlutum. Á næsta ári er mögulegt að sjá fyrir endann á að heilu landshlutarnir hafi í dreifbýli öflugt netsamband. Fyrir ótrúlega litla fjármuni hefur tekist að leysa úr læðingi mikinn kraft til að takast á við það verkefni sem við skoðun í upphafi virtist vera óframkvæmanlegt.

Ég nefni samgöngur og fjarskipti í því samhengi að beita má nýrri hugsun, nýjum leiðum til að ná hraðar fram nauðsynlegum úrbótum, ekki aðeins til þess að létta undir mikilli framkvæmdaþörf heldur og ekki síst til að vekja athygli á að framkvæmdir í þeim efnum grundvalla framtíðarhagvöxt okkar allra.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til breytingartillögu um framlög til endurnýjunar á myndgreiningarbúnaði heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, 200 millj. kr. Í haust hafði verið talsverð umræða um fjármögnun heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni í samfélaginu og í fjárlaganefnd. Við deilum ekki um það að þeim er mjög þröngur stakkur sniðinn í rekstri. Það er fullkomlega óásættanlegt að þeim sé ekki réttur sá kraftur til endurreisnar og eflingar þegar við verjum gríðarlegum fjármunum til eflingar í heilbrigðisrekstrinum almennt.

Í fyrra gerði meiri hluti fjárlaganefndar einmitt líka tillögu um hækkun rekstrarframlaga til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, um 400 millj. kr. Þeir fjármunir eru nú komnir inn í það sem almennt er nefndur grunnur þeirra til reksturs og nýtast þeim þá áfram. Á þessu ári leggjum við ekki til tillögu til hækkunar framlaga til rekstursins heldur beinum því til hæstv. heilbrigðisráðherra að hún vinni á árinu í endurbótum á rekstrarumhverfi þessara mikilvægu stofnana, því að það þarf miklu meira en bara fjármagn til þess að efla rekstur þeirra, ekki síst þarf skýrari sýn á hlutverk þeirra, tilgang og skyldur.

Ég bendi líka á það, og það hefur fjárlaganefnd rétt eins og fyrir ári síðan nefnt og rætt og fjallað um í nefndaráliti sínu, að ráðherra heilbrigðismála hefur talsvert úrræði í ráðuneyti sínu til þess að létta undir með rekstri þessara mikilvægu stofnana, rétt eins og reyndin var á síðasta ári.

Talsverð umræða hefur orðið í dag um þá tillögu að leggja til sölu á losunarheimildum. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson lagði í andsvari fram mjög upplýsandi sjónarhorn á þá tillögu. Ég tek undir með félögum mínum sem hafa talað í umræðunni í dag um að við þurfum, á milli umræðna, að fara betur yfir tillöguna og greina hana með þeim hætti að við öðlumst betri yfirsýn yfir það til hvers við erum að selja og hvaða hagsmunir liggja þar undir. Ég vek athygli á því að þetta stutta innlegg hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar var mjög upplýsandi og það er á þeim nótum og þess vegna sem meiri hluti fjárlaganefndar fjallar um loftslagsmál í nefndaráliti sínu.

Meiri hlutinn nefnir í nefndarálitinu að þörf sé á mun meiri umræðu um stóru hagsmunamálin. Hún verði að fara fram, ekki síst út frá þeirri staðreynd að sú sérstaða sem landið okkar býður og þau tækifæri sem við getum haft til að binda meira með landgræðslu og skógrækt, með öllum þeim víðernum sem við eigum, ógrónum, og við getum ræktað upp og bundið mikið kolefni í, verða að fást viðurkennd á alþjóðavettvangi. Þegar við förum að ræða loftslagsmál og komast betur inn í þá hugsun sem þar er og það hlutverk sem við höfum verðum við þess mjög vör að við höfum ekki, leyfi ég mér að segja, forseti, gætt hagsmuna Íslands fyllilega í þeim samræðum á alþjóðavettvangi sem nauðsyn er á.

Ábending okkar í meiri hlutanum er um framtíðarhagsmuni okkar, um stór efnahagsleg mál til lengri tíma litið. Þess vegna er mikilvægt að við náum árangri í því og að við endurskoðun loftslagssamnings náum við fram þeim breytingum að við komumst á þann stað þannig að við getum notað þau tækifæri sem við höfum.

Forseti. Með samþykkt þessa fjárlagafrumvarps er ótrúlegum fjármunum bætt við ríkisútgjöld. Það er ekki verið að skera niður til þeirra málaflokka sem almenn samstaða er um að leggja til á nýjan leik. Við lifum í sterku samfélagi. Við búum við kröftugt og öflugt efnahagslíf. Það verður vandi að takast á við efnahagsstjórn næstu mánaða. Hér er enn þá kröftugur vöxtur, lífskjör hafa batnað verulega, tekist hefur að bæta kjör flestra í samfélaginu. Ég legg áherslu á, og við skulum ekki gleyma því, að skuldir ríkissjóðs hafa lækkað verulega. Skuldir heimila eru í sögulegu samhengi litlar. Það er sú áhersla í efnahagsmálum sem mun hjálpa okkur í gegnum þrengri tíma, hvenær sem þeir koma. Það er mikil ábyrgð að varðveita þann árangur sem hefur náðst. Það hafa alltaf verið áskoranir og það hafa alltaf verið verkefni.