149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talaði hv. þingmaður um hið ágæta frumvarp, svokallaða, en hvað finnst hv. þingmanni um að tölurnar í frumvarpinu og útskýringum ráðuneyta stemmi ekki? Hvað finnst hv. þingmanni um að við vitum í rauninni ekki af hverju verið er að biðja um svo og svo marga milljarða í eitt málefnasvið og svo og svo marga milljarða í annað málefnasvið þegar þau aukaútgjöld, bundin útgjöld, útgjaldasvigrúm o.s.frv., þær tölur sem eru settar þar fram stemma einfaldlega ekki við þær upplýsingar sem við fáum síðan? Ættum við ekki að fá góða sundurliðun þannig að það útskýri allan útgjaldavöxtinn? Eða eigum við bara að giska á að eitthvað gott verði gert við aukapeninginn eða jafnvel umframpeninginn?

Í fjárlaganefnd fengum við kynningu frá velferðarráðuneytinu sem fór yfir útgjaldasvigrúmið og þar stemmdi allt upp á krónu. Svo bætist forsætisráðuneytið við og segir: Við ætlum líka að eyða 25 milljónum aukalega í umboðsmann barna sem er gott og blessað en þá erum við komin með 25 milljónum of mikið af sundurliðun í það útgjaldasvigrúm sem boðið er upp á.

Það eru fleiri dæmi um þetta en þetta er eitt það augljósasta.

Hv. þingmaður talaði um mikinn vöxt, en eigum við að ræða vöxtinn eða markmiðin með þeim vexti? Hvaða markmiðum á að ná með því að fara í þennan útgjaldavöxt? Eigum við ekki einmitt að vera í markmiðadrifnum, kostnaðarmetnum og ábatagreindum fjárlögum? Er það ekki þar sem umræðan á að vera?