149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður velur að nota orðið „skattakrumla“ þegar hann ræðir um samneysluna. Það er gildishlaðið orð og gefur í skyn að verið sé með óréttmætum hætti að hrifsa eitthvað úr vösum einhvers.

Þannig er það nú ekki, frú forseti.

Skattheimta og samneysla er sennilega besta fjárfesting sem nánast allir Íslendingar eiga um ævina. Jafnvel við sem erum á háum launum erum illa varin ef við veikjumst og þurfum á heilbrigðisþjónustu að halda, dýrum lyfjum og öðru. Ég held að það sé rétt að tala varlega um þetta með þessum hætti.

Ég skildi hins vegar hv. þingmann þannig þegar hann talaði um glórulausar tillögur Samfylkingarinnar til tekjuöflunar, sem miðast að því að þeir sem eru of ríkir leggi meira af mörkum, að það eigi ekki að gera í samdrætti, ekki í niðurskurði.

Má ég þá spyrja hv. þingmann hvort honum hafi þótt það gáfulegt síðustu tvö kjörtímabil sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið hér við völd að létta álögum og slaka á þegar við vorum í bullandi uppsveiflu? Sitja í sófanum, opna ísskápinn og éta úr honum og éta afganginn, en sitja núna uppi með það að þegar harðnar á dalnum, þegar Samfylkingin hefur talað gengið niður og verðbólguna upp, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, hafi menn engin önnur ráð en að taka réttmætar væntingar af hópi eins og öryrkjum, sem fái sannarlega aðeins meira í fjárlagafrumvarpinu, en fá hins vegar sannarlega líka minna en lofað var fyrir þremur vikum.