149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn hv. þingmanns og ætla bara að rifja það upp að ef við, eins og ég rakti í minni ræðu, lækkum skuldir ríkissjóðs úr 36% af landsframleiðslu — nei, það var mun hærri tala. Maður á aldrei að fara með tölur eftir minni en meginmálið er að ef við værum að greiða sömu vexti af sömu skuldum í dag og við gerðum 2012 væri það 40 milljarða hærri greiðsla sem við værum þá ekki að nota til að fjárfesta í betra menntakerfi og heilbrigðiskerfi, í að bæta almannatryggingar o.s.frv.

Ég hef rætt það í ræðustóli Alþingis á undanförnum árum — af því að hv. þingmaður biður mig að hugleiða þetta — að við höfum líka tekið önnur lán sem eru frestun viðhalds í vegakerfi. Það eru líka mjög dýr lán og eru núna að falla á okkur í stórum stíl. Ég er ekki með því að segja að það eigi að hætta að greiða niður skuldir ríkissjóðs að einhverju marki, ég er ekki að tala fyrir því að ríkissjóður verði algjörlega skuldlaus. Ég held að það sé eðlilegt að hann skuldi eitthvert hlutfall. Það getur einfaldlega verið mikilvægt fyrir heilbrigðan skuldabréfamarkað o.s.frv. En ég tek undir með hv. þingmanni, við megum ekki gleyma öðrum lánum sem við tókum sem við sjáum ekki í debet og kredit með beinum hætti í okkar opinbera bókhaldi.